Fara í efni
Fréttir

Skátarnir setja upp um 3000 ljósakrossa

Þórey Bergsdóttir og Pétur Torfason í kirkjugarðinum á Naustahöfða í morgun. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Skátar á Akureyri hafa í áratugi séð um að koma fyrir ljósakrossum við leiði í kirkjugörðum bæjarins fyrir jólahátíðina, bæði á Naustahöfða og í Lögmannshlíð. Þeir hófust handa fyrir nokkru við að setja krossana á sinn stað og þessa helgi vinna þeir að því tengja þá við rafmagn. Þegar hafa verið pantaðir um 3.000 ljósakrossar, þar af um 140 í Lögmannshlíð, og þeim mun án efa fjölga miðað við reynslu fyrri ára.

Blaðamaður hitti hóp skáta í kirkjugarðinum á Naustahöfða um síðustu helgi og aftur í morgun. Reynsluboltarnir Þórey Bergsdóttir og Pétur Torfason voru í þeirra hópi en bæði hafa komið að verkefninu í fjóra áratugi; Þórey fyrst 1983 og Pétur ári síðar. Þau voru sammála um að vinnan væri afskaplega gefandi og í huga beggja fyrir löngu orðinn nauðsynlegur liður í aðdraganda jóla.

Arnór Bliki Hallmundsson var einn þeirra sem vann við að tengja krossana í morgun.

Það er fallegur siður að setja ljósakross við leiði ástvina og kirkjugarðarnir, þeir fögru og friðsælu staðir, hafa yfir sér dásamlegan blæ eftir að ljósið er tendrað við allan þenna fjölda leiða í skammdeginu.

Upphafsmaður þessa góða verkefnis var Ingvi Hjörleifsson rafvirkjameistari. Hann byrjaði með um 100 krossa árið 1962 en eldri skátar í St. Georgsildi tóku við þegar Ingvi flutti úr bænum tveimur árum síðar þannig að nú eru nákvæmlega 60 ár síðan þeir tóku við af Ingva. Dúi heitinn Björnsson kirkju- og kirkjugarðsvörður fór fyrir skátunum, verkefnið vatt upp á sig og nú er svo komið að krossarnir eru um 3.000 ár hvert sem fyrr segir.

Fyrir þremur árum tók Skátafélagið Klakkur við verkefninu af St. Georgsgildinu, þannig að nú sameinast kynslóðirnar við verðugt verkefni sem er, að mati þeirra sem rætt var við í morgun, í senn gefandi vinna, holl og góð útivera á fallegum stað og mikilvæg fjáröflun fyrir starf skátanna. 

  • Hafi fólk áhuga á að panta ljósakross við leiði ástvina er best að hringja á skrifstofu Útfararþjónustu Kirkjugarða Akureyrar. Síminn þar er 461 4060.