Fréttir
Skátarnir: ævintýri þrátt fyrir erfiðleika
05.08.2023 kl. 09:42
Mynd: Sigrún María Bjarnadóttir.
Bandalag íslenskra skáta hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem gefin er öllu mildari mynd af stöðu mála á mótssvæði Alheimsmóts skáta í Suður-Kóreu en sú sem dregin hefur verið upp í nokkrum íslenskum fjölmiðlum. Þegar mótið var að hefjast fóru að birtast fréttir í fjölmiðlum um slælegan undirbúning, erfiðar aðstæður, brottför hópa og svo framvegis.
Myndin sem dregin var upp var dökk og orð eins og eymd og volæði notuð í einhverjum tilvikum. Vissulega hafa erfiðleikar blasað við mótshöldurum og mótsgestum vegna hita og úrkomu sem höfðu áhrif á undirbúning, en skátarnir bera sig vel og upplifa ævintýri á hverjum degi þrátt fyrir hindranir og erfiðleika sem hitinn veldur. Þetta eru skátar og þeir eru vel búnir og viðbúnir því sem að höndum ber.
Af 140 manna hópi frá Íslandi eru 20 manns frá Skátafélaginu Klakki á Akureyri. Þrátt fyrir hitabylgju og mikla úrkomu ber íslenski hópurinn sig vel, dagskráin sem hefur verið í boði hefur verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til að kynnast skátum frá öllum heimshrnum, eins og segir í tilkynningunni, enda séu alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í.
Fram kemur í tilkynningunni að íslensku þátttakendurnir hafi, líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafi átt sér stað.
Tilkynning Bandalags íslenskra skáta
Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.
Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast.
Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.
Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.
Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.
Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.