Skammhlaup í rofa olli rafmagnsleysinu
Ástæða þess að rafmagn fór af öllu Glerárhverfi seint í gærkvöldi og raunar víðar í bænum, var sú að vegna eldsvoða í Glerárskóla varð skammhlaup í háspennurofa í spennistöð Norðurorku, í kjallara skólans. Þetta segir Vigfús Ingi Hauksson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs fyrirtækisins.
Spennistöðin í Glerárskóla er svokölluð dreifistöð og vegna þess sem þar gerðist leysti út spennisrofi í aðveitustöðinni við Kollugerði í Giljahverfi eins og hann á að gera við þessar aðstæður. Þegar búið var að staðsetja bilunina var satt rafmagn á aftur frá Kollugerði, og ljós kviknuðu á ný á stærsta hluta svæðisins um miðnætti. Rafmagn komst þó ekki á fyrr en um klukkan sex í morgun í næsta nágrenni skólans.
Starfsmenn Norðurorku voru við vinnu í Glerárskóla til klukkan sjö í morgun og halda áfram í dag. Vonast er til þess að rafmagn komist á allan skólann í dag.
Eldur í Glerárskóla, rafmagn af Þorpinu