Fara í efni
Fréttir

Sjöunda mark Söndru á móti FH á árinu

Lara lagði upp, Sandra María skoraði. Saman fagna þær eina marki leiksins í dag. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Það verður seint þreytandi að segja frá mörkunum sem Sandra María Jessen hrellir andstæðinga Þórs/KA með á þessari leiktíð. Eins og lýst var í annarri frétt skoraði hún eina mark Þórs/KA í sigri á FH í dag. Henni hefur gengið einkar vel að koma boltanum í net FH-inga á þessu ári.

Sandra María var sem sagt að skora sitt sjöunda mark á móti FH á þessu ári, í fjórum leikjum á fjórum völlum. Leikurinn í dag var reyndar fimmta viðureign liðanna á árinu, en FH vann 1-0 sigur á VÍS-vellinum í byrjun júlí í 10. umferð Bestu deildarinnar.

Mörkin sjö:

  • Seinna markið í 2-1 sigri á FH í Skessunni 9. mars – Lengjubikar
  • Öll fjögur mörkin í 4-0 sigri á FH á BIRTU-vellinum í lok apríl – Besta deildin, 2. umferð
  • Eina mark leiksins í 1-0 sigri á FH á Kaplakrikavelli í júní – Mjólkurbikarinn, átta liða úrslit
  • Eina mark leiksins í 1-0 sigri á FH á Greifavellinum í dag – Besta deildin, efri hluti, 1. umferð

Þórir Ó. Tryggvason var með linsuna á lofti á Greifavellinum í dag og samdi þessa syrpu með vísifingrinum þegar Sandra María skoraði markið.

  • 49. mínúta – Sjöunda mark Söndru Maríu á móti FH á árinu og 21. markið í Bestu deildinni
    Lara Ivanuša fær boltann frá varnarmanni FH, spilar áfram og rennir honum inn í teiginn vinstra megin þar sem Sandra María Jessen er mætt inn fyrir varnarmann FH, rennir honum í fjærhornið, fagnar og þakkar Löru fyrir sendinguna. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason.