Fréttir
Sjávarföllin seinkuðu vinnu í Hjalteyrarhöfn
13.08.2024 kl. 15:00
Fegurðin er víða. Hjalteyri, höfnin og smábátahöfnin glöddu augað í morgun þegar starfsmenn Hafnasamlags Norðurlands undirbjuggu framkvæmdir sem þar verður loksins hægt að ráðast í á morgun, eftir að sjávarföll hafa seinkað verkinu. Mynd: Hafnasamlag Norðurlands.
Starfsmenn Hafnasamlags Norðurlands stefna að því að klæða timburbryggjuna á Hjalteyri á morgun. Fram kemur á Facebook-síðu Hafnasamlagsins að sjávarföllin hafi verið óhagstæð undanfarnar vikur svo ekki hafi verið hægt að ráðast í þessa framkvæmd fyrr en nú. Þegar þessari vinnu lýkur ætti smábátahöfnin á Hjalteyri að vera komin í gott stand, að því er fram kemur í pistlinum.
Meðfylgjandi myndir fylgdu með á síðu Hafnasamlagsins og ekki hægt annað en að segja að fegurðin hafi geislað af Hjalteyri og höfninni í morgun, í frábæru veðri.