Fara í efni
Fréttir

SÍMEY vill fá sem flesta í raunfærnimat

Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) vekur athygli á raunfærnimati, og hve miklu máli það getur skipt fólk, í grein sem birtist á Akureyri.net í dag.

  • Hvað er raunfærnimat? – Á vef SÍMEY segir: Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Það gerir færni og þekkingu sýnilega með því að meta hana á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins. 

„Þess eru mörg dæmi að fólk starfi árum saman innan sömu atvinnugreinar án þess að hafa lokið fagnámi í viðkomandi starfsgrein. Reynslan og þekkingin sem fólk aflar sér í gegnum árin og býr yfir er afar dýrmæt,“ segir Helena Sif. „Fyrir það fólk sem hefur lengi verið á vinnumarkaði en kýs á einhverjum tímapunkti að sækja sér formlega menntun og fá staðfesta þekkingu sína og hæfni í viðkomandi starfi er raunfærnimat afar öflugt tæki. Ekki aðeins styttir það leið fólks að settu marki heldur veitir það því mikið sjálfstraust til þess að takast á við nýjar áskoranir í námi eða varðandi framgang í starfi.“

Fræðslusjóður greiðir kostnað við raunfærnimat fyrir þá þátttakendur sem hafa ekki lokið formlegu námi, t.d. stúdentsprófi, segir Helena Sif, „en þeir sem hafa lokið formlegu námi geta fengið raunfærnimat niðurgreitt frá stéttarfélögum og/eða starfsmenntunarsjóðum. Til þess að fara í raunfærnimat þarf fólk að vera að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafa að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.“

Grein Helenu: Raunfærnimat er öflugt tæki