Fara í efni
Fréttir

Símanum skipt út fyrir pílu, pool og spil

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Ýmislegt hefur komið í staðinn fyrir farsímana sem afþreying hjá nemendum í grunnskólum Akureyrar eftir að samræmdar símareglur voru teknar upp í haust. Skólastjórnendur í bænum segja  ánægjulegt að sjá hvað krakkarnir eru duglegir að finna sér aðra afþreyingu.

Bókasafnið og skólalóðin nýtt betur

„Nemendur hafa fundið upp á skemmtilegri afþreyingu í frímínútum t.d. kom einn nemandi með plötuspilara og spilaði hljómplötur í frímínútum. Það féll vel í kramið hjá hópI nemenda. Einnig hafa nemendur komið með tillögur að afþreyingu, svo sem að fara í pílu, spila borðspil, hafa tónlist í sal skólans í frímínútum og spjalla. Allt þetta reynir á almenn samskipti sem er af hinu góða. Í tímum nýta nemendur aðeins tölvubúnað skólans og það hefur reynst vel. Skólinn er vel búinn varðandi tölvur og tæknibúnað. Skólabragurinn er góður og andrúmsloftið virðist nokkuð þægilegt og gott, segir Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla.

Nemendur Síðuskóla hafa aðgang að íþróttahúsi skólans í löngufrímínútum alla skóladaga nema föstudaga. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Hér í Síðuskóla höfum við góðan matsal, íþróttasal og við keyptum spil fyrir alla árganga þannig að það er góð afþreying fyrir alla. Bókasafnið er líka opið og það eru margir sem nýta sé það. Svo eigum við frábæra skólalóð,“ segir Ólöf Inga Andrésdóttir, skólastjóri Síðuskóla.

„Við höfum keypt píluspjöld, púttmottu, spikeball sett og spil og foreldrafélagið gaf poolborð. Fyrir áttum við síðan borðtennisborð og fótboltaspil. Við leituðum til unglinganna með það hvað þeir vildu helst láta kaupa og reyndum að verða við því eins og hægt var,“ segir Anna Bergrós Arnarsdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla.

„Nemendur hafa fundið upp á skemmtilegri afþreyingu í frímínútum t.d. kom einn nemandi með plötuspilara og spilaðir hljómplötur í frímínútum. Það féll vel í kramið hjá hóp nemenda.

Krakkarnir almennt í meiri samskiptum

„Það sem við erum að skoða er hvernig við getum aukið afþreyingu fyrir þau í frímínútum. Við í Giljaskóla erum nokkuð vel sett þar sem að nemendur fara tvisvar í viku í íþróttahúsið og svo erum við með poolborð, borðtennis, þythokký og rými í Dimmuborgum sem að er félagsmiðstöðvarsvæði hér í skólanum. Krakkarnir spila meira og tefla og eru almennt í meiri samskiptum. Við erum að vinna með réttindaráði nemenda til að fá hugmyndir frá nemendum um hvað þau vilja hafa í boði. Við erum líka það vel sett að við eigum námstæki Ipad eða fartölvur fyrir alla nemendur skólans og því ekki þörf á símum í skólastarfinu, segir Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri Giljaskóla og bætir við: „Það ánægjulegasta er að sjá nemendur eiga í samskiptum og horfast í augu og sjá að það er bara nokkuð gott og auðveldlega hægt að eiga í samskiptum án þess að þurfa síma.

Á meðal þess sem nemendum Giljaskóla stendur til boða í frímínútum er að spila borðtennis. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

„Það sem mér finnst ánægulegt er að nemendur eiga meiri samskipti sín á milli, nemendur eru duglegir að finna sér afþreyingu með því að spila, fara í borðtennis eða fara út á skólalóð í körfubolta eða fótbolta. Einnig finnst mér meiri ró yfir nemendum í frímínútum - kannski af því að þau eru í vikrum samskiptum, segir Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri Naustaskóla.

„Þetta er farið að ganga mjög vel og engir hnökrar dag frá degi. Það sem er ánægjulegast við símafríið er að það er minni truflun. Nemendur leika sér meira og eiga í eðlilegum samskiptum. Það hefur einnig komið okkur á óvart hversu fáir kjósa að nota símann í frímínútum á föstudögum. Það gerist einstaka sinnum að drengir velji að eyða frímínútum í símanum en annars velja þeir að spila eða fara í körfubolta mun oftar. Stúlkurnar virðast vera mun háðari símunum sínum og valla missa úr símatíma," segir Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla. 

Við teljum að verklagið, að heyra í öllum aðilum, ræða þetta vel síðastliðið vor hafi gert það að verkum að vel gengur. Það var líka gott að allir skólarnir voru samstíga, þetta á við um alla.

Ekki hægt að greiða með síma í sjoppunni

Þó vel hafi tekist til með símafríið í skólum Akureyrarbæjar hafa ýmsar áskoranir dúkkað upp sem ekki voru fyrirséðar, t.d. varðandi sjoppurekstur í skólunum. Margir nemendur voru vanir að greiða með símunum sínum í sjoppunum en í símafríi er það ekki hægt. „10. bekkur sem rekur sjoppuna fann frábæra lausn á því. Krakkarnir útbjuggu klippikort sem hægt er kaupa á föstudögum þegar símar eru leyfðir. Það er svo klippt af kortinu hina dagana,“ segir Ólöf Inga, skólastjóri Síðuskóla.

Samskonar kerfi var tekið upp í nemendasjoppunni í Brekkuskóla og segir skólastjórinn þar að klippikortin virki mjög vel. „Það var ákveðin áskorun fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem voru vanir því að fá að vera með síma að fá ekki að vera með þá lengur. En við teljum að verklagið, að heyra í öllum aðilum, ræða þetta vel síðastliðið vor hafi gert það að verkum að vel gengur. Það var líka gott að allir skólarnir voru samstíga, þetta á við um alla,“ segir Ólöf Inga.

„Óvæntar áskoranir snúa helst að námi og við erum að átta okkur á hvað krakkarnir voru að nota símana mikið til náms. Við eigum ekki spjaldtölvur handa öllum þó allir í 5. bekk og eldri fái chromebook vélar. Þau tæki henta ekki eins vel t.d. í myndatökur og úrvinnslu mynda og myndbanda. Fékk t.d. rétt áðan spurningu um hvort nemendur megi fara með skólaspjaldtölvur á Glerártorg þar sem þeir eru að gera könnun og spyrja vegfarendur spurninga og slá strax inn svörin í google forms. Sams konar verkefni var áður unnið í símum,“ segir Anna Bergrós, skólastjóri Oddeyrarskóla og heldur áfram: „Hjá okkur er erfiðast að fá nemendur til að læsa síma inni í skápum en það þarf að borga smá upphæð til að fá lás, sem síðan er endurgreidd þegar lás er skilað. Það má líka koma með lás að heiman en það hefur ekki skilað sér nógu vel. Við leitum ekki á nemendum en ef símar eru í töskum eru nemendur alla vega ekki að taka þá upp þannig að starfsmenn sjái til. Ef það gerist eru nemendur látnir afhenda símana.“ 

„Það er með þetta eins og allt annað þegar eitthvað er nýtt að lagt er upp með eitthvað plan til að byrja með. Síðan þegar skólastarf byrjar að þá kemur eitthvað upp og þá þarf maður bara að bregðast við og breyta og bæta. Við höfum verið í því að fínpússa verkferla hjá okkur varðandi símafríið og það hefur gengið vel. Áskorun sem við þurftum að finna út úr var t.d. hvað við myndum gera þegar við færum í vettvangsferðir í lok dags eða þegar við endum skóladaginn í íþróttum eða sundi s.s. á öðrum stað en í skólanum þar sem símarnir eru í læstum skápum. Það þurfti aðeins að hugsa hvernig við myndum leysa það en þetta er í góðum farvegi núna,“ segir Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla. 

Það hefur einnig komið okkur á óvart hversu fáir kjósa að nota símann í frímínútum á föstudögum. Það gerist einstaka sinnum að drengir velji að eyða frímínútum í símanum en annars velja þeir að spila eða fara í körfubolta mun oftar. Stúlkurnar virðast vera mun háðari símunum sínum og valla missa úr símatíma.

Kennarar sýna gott fordæmi

Samhliða símaleysi nemenda gera samræmdu símareglunar einnig ráð fyrir því að starfsfólk sé ekki í símum á nemenda svæðum og sýni þannig gott fordæmi. Þetta hefur tekist vel að sögn skólastjórnenda og hafa ferðir kennara inn á kaffistofu gagngert til þess að „kíkja í símann“ ekki aukist. „Það er oft uppbyggileg umræða á kaffistofunni í matar- og kaffitímum um nám og kennslu, íþróttir, lífið og tilveruna. Við leggjum okkur fram við að vera dálítið skemmtileg í Lundarskóla, spjalla og hlæja saman og njóta samvistar,“ segir Maríanna, skólastjóri.

Undir þetta taka fleiri skólastjórnendur og segja að það sé yfirleitt mikið spjallað á kaffistofum skólanna, en vissulega þurfi stjórnendur og kennarar oft að nota símana á skólatíma, símar eru t.d. öryggistæki í ferðum nemenda eða úti á lóð í gæslu. „Það er engin kvöð um símaleysi á kaffistofu en starfsfólk er lítið í símunum og spjallar frekar, segir Tómas Lárus, deildarstjóri/staðgengill skólastjóra Glerárskóla.