Sigurður hlaut hvatningarverðlaunin
Sigurður Arnarson, sem skrifar vikulega pistla, Tré vikunnar, á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga og Akureyri.net birtir einnig, hlaut í dag hvatningarverðlaun skógræktar 2024.
Sigurður tók við verðlaununum á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin er í Hofi á Akureyri í dag og á morgun.
Verðlaunin voru nú afhent í fyrsta skipti og verða veitt árlega til einstaklinga, hópa, fyrirtækja, félaga eða stofnana sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu skógræktar á Íslandi, eins og það er orðað.
Sigurður fékk að gjöf forláta skál, að sjálfsögðu úr íslensku tré, og verðlaunaskjal þar sem segir:
Verðlaunin hlýtur Sigurður fyrir skrif á fræðandi og áhugaverðum greinum um trjátegundir, skóga og skógrækt, sem birtar hafa verið á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga og víðar. Með því hefur hann stuðlað að aukinni þekkingu fyrir bæði almenning og fólk innan skógræktargeirans. Einnig er hann höfundur bókar um belgjurtir og hefur verið virkur í umræðu um skógartengd málefni.
Kallað var eftir tilnefningum til verðlaunanna meðal almennings, á fjórða tug bárust og dómnefnd valdi úr þrjá aðila til almennrar kosningar. Auk Sigurðar voru það annars vegar Waldorfskólinn, hins vegar Steinar Björgvinsson og Árni Þórólfsson hjá gróðrarstöðinni Þöll og Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Innilega til hamingju, Sigurður!
Hér er nýjasti pistill Sigurðar sem birtist í morgun: Dularfull vænghnota á Íslandi
Smellið hér til að sjá alla pistla Sigurðar á Akureyri.net.