Sigurður Helgason stærðfræðingur látinn
Sigurður Helgason stærðfræðingur lést á heimili sínu í Belmont, Massachusetts í Bandaríkjunum, 3. desember síðastliðinn, 96 ára að aldri. Morgunblaðið greindi frá andláti hans í morgun,
Sigurður var fæddur á Akureyri 30. september árið 1927. Hann var sonur hjónanna Köru Briem húsmóður og Helga Skúlasonar augnlæknis. Eftir útskrift frá Menntaskólanum á Akureyri 1945 stundaði hann nám við verkfræðideild Háskóla Íslands í eitt ár en hélt þaðan til Danmerkur þar sem hann lauk mag. scient.-prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1952.
Frá Kaupmannahöfn lá leið Sigurðar til Bandaríkjanna, og árið 1954 lauk hann doktorsprófi frá Princeton-háskóla. Að námi loknu sinnti hann kennslu við MIT (Massachusetts Institute of Technology) háskólann í Boston, Princeton-háskóla, University of Chicago og Columbia University. Árið 1960 hlaut hann stöðu við MIT og var gerður að prófessor við skólann árið 1965.
Eftir Sigurð liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar á sviði stærðfræði, og hlaut hann margs kyns viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands, Kaupmannahafnar- og Uppsalaháskóla. Árið 1991 hlaut hann stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.
Sigurður lét sig lengi varða kennslu í stærðfræði við Háskóla Íslands, tók þátt í að styrkja bókakost stærðfræðideildar og árið 2017 stofnaði hann verðlaunasjóð við skólann sem veitir viðurkenningar til nemenda og nýútskrifaðra stærðfræðinga.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Artie Helgason, fyrrverandi félagsráðgjafi. Börn þeirra eru Thor Helgi verkfræðingur og Anna Lóa læknir, bæði búsett í Bandaríkjunum.
Myndin af Sigurði var tekin í Gamla skóla þegar hann fagnaði 70 ára stúdentsafmæli frá MA 17. júní árið 2015.