Fara í efni
Fréttir

Sigurður Friðriksson skipstjóri er látinn

Sigurður Baldvin Friðriksson skipstjóri er látinn. Hann fæddist á Dalvík 27. ágúst 1942 og lést í faðmi fjölskyldunnar 4. ágúst á Sjúkrahúsinu á Akureyri, áttræður að aldri.

Eiginkona Sigurðar er Dröfn Þórarinsdóttir. Þau gengu í hjónaband í janúar 1968. Sigurður og Dröfn eiga fimm börn; Þórunn Sigríður er gift Sigurði Bjarnari, Friðrik er kvæntur Guðbjörgu Önnu, Þórdís Rósa er gift Rósberg, Eva Dögg gift Hákoni Melstað og Sigurður Grétar í sambúð með Hörpu Dögg. Sigurður Baldvin átti einnig dótturina Ólöfu Björk sem gift er Agnari Árnasyni.

Foreldrar Sigurðar voru Rósa Þorvaldsdóttir verkakona og Friðrik Guðbrandsson skósmiður. Sigurður átti einn bróður, Grétar sem lést mánaðargamall, og tvær systur, þær Huldu Margréti, sem lést 2013, og Heiðrúnu.

Sigurður gerði sjómennsku að ævistarfi. Hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum í maí 1966 en hóf að stunda sjóinn aðeins 14 ára gamall. Hann var á togurum hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Útgerðarfélagi KEA og síðan á skipum sem gerð voru út frá Vopnafirði og Þórshöfn, og þá var hann um tíma skipstjóri hjá útgerðarfélagi Snorra Snorrasonar á Dalvík.

Sigurður hóf skipstjórnarferillinn á Snæfellinu frá Hrísey, var síðan skipstjóri á Stakfellinu frá Þórshöfn og síðustu árin áður en hann kom í land  starfaði Sigurður sem skipstjóri hjá Reyktal þjónustu ehf. Þegar hann hætti formlega til sjós rúmlega sjötugur sigldi hann Húna II af og til.

Barnabörn Sigurðar eru 19 og barnabarnabörn 21.

Fjölskylda Sigurðar óskar eftir að koma á framfæri þökkum fyrir alla veitta aðstoð og vill færa dásamlegum hjúkrunarfræðingum í blóðskilun á Sjúkrahúsinu á Akureyri sérstakar þakkir fyrir allar gæðastundirnar, hlýju og einstakan stuðning.

Útför Sigurðar Baldvins fer fram frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 22. ágúst klukkan 13.