Sigurður er kominn heim til Akureyrar
Sigurður Kristinsson, 71 árs Akureyringur sem hefur legið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan ágúst þegar hann fékk alvarlegt heilablóðfall, er kominn heim til Akureyrar. Sjúkraflugvél sem flutti Sigurð frá Murcia á Spáni lenti á Akureyrarflugvelli um klukkan tvö í dag.
Rúna Kristín, dóttir Sigurðar, var með í för í dag ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi. Sigurður var fluttur rakleiðis frá flugvellinum á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Fjársöfnun var hrundið af stað fyrir nokkrum dögum vegna þess að fjölskylda Sigurðar varð að standa straum af flutningi hans heim til Íslands. Á þeim stutta tíma tókst að safna fyrir stærstum hluta sjúkraflugsins en þar sem enn vantar eitthvað upp á er rétt að birta aftur númer reiknings sem stofnaður var af þessu tilefni.
- Reikningsnúmerið er: 1187 - 05 - 250534, kennitala 150873-4879