Fara í efni
Fréttir

Sigtryggur & Pétur endanlega farnir

Reimar Viðarsson, eiginmaður Guðnýjar Rutar, að störfum áður en veggurinn gamalkunni var málaður. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Húsið númer 5 við Brekkugötu á Akureyri lætur lítið yfir sér en hefur engu að síður sett sterkan svip á neðst hluta Brekkugötunnar, við Ráðhústorgið, í áratugi. Græni, áberandi veggurinn þar sem orðið GULLSMIÐIR var málað með stóru, gulu letri heyrir nú hins vegar sögunni til. Gullsmíðaverkstæðinu og versluninni hefur nú verið lokað, veggurinn málaður grár og unnið að því að innrétta snyrtistofur í húsinu.

Á morgun, 1. október er liðið 61 ár síðan Sigtryggur Helgason og Pétur Breiðfjörð stofnuðu verkstæðið í Brekkugötu 5. Báðir voru þeir einnig þekktir tónlistarmenn og spiluðu með Lúðrasveit Akureyrar í áratugi.

Sigtryggur, sem var meistari Péturs, starfaði við gullsmíðina allt til æviloka, en hann lést 1986. Pétur hélt sínu striki eftir það og réði Auði Sigvaldadóttur frænku sína til starfa 1988. Svo fór að hún keypti verkstæðið og versluna af Pétri í ársbyrjun 2007 en hélt vitaskuld nafninu – Gullsmiðir Sigtryggur & Pétur, þótt hún skipti um kennitölu. Pétur starfaði í nokkur ár hjá Auði. Hann lést 2019.

„Nafnið var þekkt og margir viðskiptavinir þeirra Sigtryggs og Pétur héldu tryggð við okkkur, þar til þeir dóu sjálfir,“ segir Auður Sigvaldadóttir við Akureyri.net. Hún eldist eins og annað fólk og ákvað því að loka fyrirtækinu. Gullsmiðurinn Ólöf Þóra Ólafsdóttir lærði hjá Pétri og starfaði lengi hjá honum, og síðan Auði; vann á stofunni í 27 ár. Nú hefur Ólöf Þóra stofnað eigið gullsmíðaverkstæði í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð.

Í Brekkugötu 5 verða hins vegar Snyrtistofa Guðnýjar Rutar og Snyrtistofan Liljan, sem Íris Rún Gunnarsdóttir á og rekur. Fleiri verða starfandi þar því Guðný og Íris hyggjast leiga út tvö herbergi.

„Við höfum leigt húsnæði í Kaupangi en langaði í okkar eigið í miðbænum og keyptum því þetta pláss með körlunum okkar, og nú verið að græja húsnæðið á fullu,“ sagði Guðný Rut við Akureyri.net.

Sjón er sögu ríkari; breytinguna á húsinu má sjá á myndunum hér að neðan.

Auður Sigvaldadóttir, Guðný Rut Bragadóttir og Íris Rún Gunnarsdóttir. Björn Helgi Reimarsson vinstra megin. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Auður Sigvaldadóttir, Guðný Rut Bragadóttir og Íris Rún Gunnarsdóttir.

Nonni Travel og Kasa fasteignir á sínum í húsinu til vinstri, og höfuðstöðvar Vinstri grænna til hægri - en græni áberandi veggurinn er horfinn á bak við gráa litinn.

Græni og guli veggurinn sem einkenndi framhlið verkstæðis og verslunar gullsmiðanna  í áratugi, er orðinn grár. Fjær er Ráðhústorgið og hluti Hafnarstrætis, sá hluti þess sem einstaka sinnum stendur undir nafni sem göngugata.