Sigþór Bjarnason – „Dandi“ – er látinn
Sigþór Bjarnason verslunarmaður er látinn eftir veikindi, á 76. aldursári. Sigþór – Dandi, eins og hann var alltaf kallaður – starfaði í JMJ Herradeild í 48 ár.
Sigþór fæddist 11. febrúar 1948 á Akureyri. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 22. júní 2023. Foreldrar hans voru Magnea Sigríður Egilsdóttir og Bjarni Sigurðsson. Systkini Sigþórs eru Ingibjörg, Egill, Þórdís og Sigurður.
Eiginkona Sigþórs til rúmlega hálfrar aldar er Guðríður Elín Bergvinsdóttir, fædd 1951. Synir þeirra eru fjórir: Sigurður Rúnar fæddur 1967, kvæntur Pálínu Austfjörð; Sævar Örn fæddur 1969, látinn 2001; Viðar Geir fæddur 1973, kvæntur Björgu Gunnarsdóttur; Elmar Dan, fæddur 1982. Unnusta hans er Bjarney Sigurðardóttir.
Sigþór ólst upp hjá ömmu sinni og afa, Þórdísi Stefánsdóttur og Sigurði Einarssyni, í Lundargötu 8 og bjó hann alla sína tíð á Akureyri. Hann fór ungur til sjós en árið 1969 hóf hann störf hjá Fatagerðinni Burkna og í framhaldinu hjá JMJ Herradeild þar sem hann starfaði til loka árs 2016.