Síðasta „sigling“ Árna á Eyri – MYNDIR
Árni á Eyri ÞH 205, 75 brúttótonna bátur frá Húsavík, verður ei meir innan fárra daga. Hann sigldi – jafnvel mætti segja að hann hafi ekið – síðasta spölinn að kvöldlagi í síðustu viku, spottakörn úr fjörunni við Krossanes upp að athafnasvæði Hringrásar við Ægisnes þar sem báturinn verður hlutaður í sundur og síðan sendur í brotajárn.
Bátur á skíðum ...
„Hann hefur ekki verið á sjó síðan 2016, fór í úreldingu og gengið var frá því í haust að hann kæmi hingað til okkar,“ segir Árni Gíslason verkstjóri hjá Hringrás á Akureyri við Akureyri.net. Nafni hans á Eyri, sem er 20 m langur og 5 m breiður, hefur legið við bryggju síðan í lok nýliðins árs en var tekinn á land fyrir viku. Þá tók við síðasta ferðalagið í því formi sem báturinn er nú: „við bæði ýttum honum og drógum eftir Krossabrautinni uppeftir til okkar; hjólaskófla var á undan honum, önnur á eftir og þriðja tækið var til taks við hliðina ef hann færi að sveiflast,“ segir Árni.
Járnplötur voru festar undir bátinn svo hann skemmdi ekki malbikið. „Það má segja að við höfum sett skíði undir hann,“ segir Árni.
Báturinn er úr áli og fer megnið af því til endurvinnslu í Hollandi. Árni á Eyri er fyrsti báturinn sem rifinn er hjá Hringrás á Akureyri síðan Árni Gíslason hóf þar störf fyrir áratug.
- Þorgeir Baldursson fylgdist grannt með gangi máli og tók þessa skemmtilegu myndasyrpu.