Fara í efni
Fréttir

Séra Svavar: Jólin segja að Guð sé hér

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur, prédikaði við miðnæturmessu í Akureyrarkirkju að kvöldi aðfangadags. Eyþór Ingi Jónsson var organisti og stjórnaði Hymnodiu sem söng við athöfnina. Hér á eftir fer prédikun séra Svavars.
_ _ _

Gleðileg jól, kæri söfnuður, gleðileg jól!

Það er töluvert önnur stemming hérna í kirkjunni í þessari messu en í aftansöngnum fyrr í kvöld. Þá var meiri spenna í loftinu og eftirvænting; skyldi sósan heppnast, er steikin temmilega elduð, verða allir ánægðir með gjafirnar? Óróleiki var í krökkunum og einhverjir fullorðnir nýttu sér andrúmið eftir allskonar annir til að fá sér kærkominn blund hérna á bekkjunum.

Nú er búið að borða veislumatinn og pakkarnir hafa verið opnaðir. Yngstu börnin eru sofnuð og liggja rjóð og þreytt á koddunum. Gjafirnar eru á sínum stað í herbergjum þeirra og jólapappírinn kominn í endurvinnslupokann í þvottahúsinu. Ysinn í húsunum hefur hjaðnað og djúp þögn jólanæturinnar færist smám saman yfir.

Hvar er kjarni jólanna? Fyrir sum okkar er hann trúarlegur, fólginn í barninu í jötunni, komu Guðs í heiminn og ljósinu sem kviknar í sálarmyrkrinu. Aðrir hafa aðra kjarna og halda jól af öðrum tilefnum.

Á meðan ég fæ matarögn að smakka
og meðan ég fæ risavaxinn pakka
þá mega jólin koma fyrir mér

er sungið í einu jólalaganna.

Oft er þessum mismunandi bakgrunnum jólanna stillt upp sem andstæðum, þeim trúarlega annars vegar og þeim veraldlega hins vegar, þeim efnislega og þeim andlega.

Þótt margir keppist við að sneiða hjá öllu trúarlegu í sambandi við jólin og aðrir reyni að halda því veraldlega í lágmarki, eru jól okkar flestra sennilega blanda af hvort tveggja efnislegum og andlegum þáttum. Stór hluti landsmanna sækir ekki helgihald um jól helgar stundir en samt er erfitt að komast hjá því að verða var við trúarlegan boðskap jólahátíðarinnar og þá andlegu vídd sem allt þetta veraldlega umstang felur í sér.

Veraldlegar venjur og siðir jólanna geta nefnilega verið þrungin ýmiskonar andlegri merkingu og hafa stundum trúarlegt innihald. Það er ekki bara veraldlegt að senda ættingjum og vinum kveðju á þessum árstíma hvort sem það er í korti, með kveðju í útvarpinu eða á netinu. Mér hlýnar um hjartaræturnar að heyra Sigfríði gömlu á Súgandafirði senda börnum sínum og fjölskyldum þeirra hlýja jólakveðju og óska vinum nær og fjær heilla á nýju ári þótt ég þekki hana Sigfríði ekki neitt. Þá finnst mér ég skynja eitthvað andlegt og sammannlegt sem tengir sálirnar þótt fjöll og firðir og stundum úthöf séu á milli.

Við gefum heldur ekki gjafir bara af efnislegum ástæðum, til að örva hagvöxtinn og tryggja að verslanirnar þrífist. Við gefum til að gleðja fólk, til að tjá væntumþykju og til að þau sem gjafanna njóta finni, að þau eru okkur kær og dýrmæt.

Og þegar fólk leggur á sig langferðir og hefur mikið fyrir því að komast til sinna um jólin er það ekki bara af sömu orsökum og laxfiskar synda á hrygningarstöðvar eða fuglar fljúga í varplönd. Hátíðin styrkir fjölskyldubönd, eflir samfélag, dýpkar vináttu- og venslabönd og tengir okkur saman. Jólin færa okkur nær hvert öðru.

Fyrsta jólamáltíðin er að baki og kannski þjást einhverjir hér inni af kjötsvima eða spaðmollu eins og sú líðan nefnist sem óhófleg neysla kjötmetis getur valdið. Allt þetta át getur auðvitað haft mjög neikvæð áhrif á líkamsheilsu okkar – en borðhald á jólum snýst þó ekki bara um næringu og hitaeiningar. Borðhaldið er líka bæði félagsleg og andleg athöfn.

Neðarlega í heila okkar er svæði sem nefnist undirstúka. Þar myndast hormónið oxytocin. Það er magnað efni – stundum nefnt kærleikshormónið. Oxytocin er ótrúlega fjölhæft og afdrifaríkt. Það veldur samdrættinum sem skýtur sáðfrumunum í átt að egginu og heldur síðan áfram að stuðla að því að við verðum til með því að koma af stað fæðingarhríðum þegar við höfum þroska til að komast úr móðurkviði. Síðan hjálpar oxytocin okkur að dafna með því stuðla að því að móðurmjólkin komist sína leið úr brjóstinu upp í munn mylkingsins. Og oxytocin heldur áfram að búa í haginn fyrir okkur. Það hefur áhrif á félagsleg tengsl okkar, hjálpar okkur að læra að treysta öðrum manneskjum og sýna þeim hlýju. Það á sinn þátt í að við getum slakað á og fundið andlegt jafnvægi. Oxytocin vinnur gegn streitu og kvíða en skortur á því getur leitt til þunglyndis.

Hvenær ætli heilinn í okkur framleiði þetta undraefni? Jú, það myndast t. d. þegar fólk elskast og þegar mæður gefa börnum á brjóst og vísindin segja ennfremur að framleiðsla á kærleikshormóninu oxytocin örvist þegar við borðum saman.

Þegar við borðuðum saman fyrr í kvöld og þegar við borðum saman á jólunum, verður til í okkur efni sem færir okkur nær hvert öðru, eflir traust á milli manna og eyðir vantrausti og hjálpar okkur að sýna hvert öðru hlýju og skilning.

Mörg ár kom maður til mín í Safnaðarheimilið rétt fyrir jólin með pening, sem hann bað mig að koma á heimili þar sem fólk gæti ekki gert sér dagamun vegna fátæktar. Eitt sinn var hann nýsestur hjá mér þegar síminn truflaði okkur. Ég ansaði og hafði í hyggju að segja þeim sem hringdi að ég myndi hringja aftur því ég væri í viðtali. Konunni á hinum enda símalínunnar lá á hinn bóginn svo mikið á hjarta að ég komst ekki að. Hún var einstæð móðir ungra barna og nánast ekkert til á heimilinu. Konan grét og maðurinn sem var hjá mér heyrði nóg af samtalinu til þess, að þegar því lauk seildist hann í jakkavasann sinn, dró þar upp veski og bætti öðru eins við fjárhæðina sem hann hafði til tekið. Síðan rétti hann mér svert peningabúnt og sagði: Komdu þessum peningum til þessarar konu.

Jólin glæða með okkur löngun og vilja til að verða öðrum að liði og blessunar. Við erum reiðubúin að leggja eitt og annað á okkur til að það megi verða. Hinn fórnandi kærleikur, gleðin, samfélagið og síðast en ekki síst, þökkin, eru andleg verðmæti sem tengjast öllu þessu jarðneska stússi okkar í kringum jólin.

Og nú þegar mesta stressið er um garð gengið erum við komin hingað í kirkjuna.

Framundan er jólanóttin. Hún á líka sín andlegu verðmæti. Hún á sinn boðskap og sinn sannleika sem við mennirnir náum sennilega aldrei að orða til fulls eða skilja í botn. Kyrrð jólanæturinnar hvíslar einhverju að okkur og í myrkri hennar verður ýmislegt sýnilegt sem ekki sést í birtu hinna skæru ljósa.

Jólanóttin segir okkur að Guð sé ekki bara eitthvað fjarlægt, órætt og óskilgreinanlegt afl. Hann sé fæddur í barninu og hann leiti okkar í því jarðneska. Jólin segja að Guð sé hér. Hann sé nálægur manninum og okkur enn nær en við höldum. Hann sé í því sem andspænis okkur er og því sem við erum að fást við. Og hann segir:

Allt sem þið gjörðuð einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þið gert mér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.