Séra Sindri: Ég vil ekki deyja á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárprestakalli, segir góða sálgæslu í kringum veikindi og andlát geta skipt sköpum varðandi það hvernig fjölskyldan tekst á við áfallið. Hann bendir á, í grein sem birtist á Akureyri.net í dag, að þessi þjónusta sé ekki í boði á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar sé hins vegar ómannað stöðugildi fyrir sálgæti.
Sindri segir átta manns starfa við sjúkrahússálgæslu á Landsspítalanum, þar sem þjónustan hafi sannað gildi sitt og frekar verið krafa um að fjölga starfsfólki við sjúkrahússálgæslu en að fækka því.
„Ég veit að hér er hægt að gera betur. Ég veit að á Sjúkrahúsinu er ómannað stöðugildi fyrir sálgæti og að nokkrar deildir Sjúkrahússins hafi ítrekað kallað eftir því að ráðið verði í starfið sem fyrst – því þörfin er mikil. En ég veit það líka að fjárhagsstaðan er þröng og að andlegur og sálrænn stuðningur fær að mæta afgangi.“
Smellið hér til að lesa grein séra Sindra Geirs.