Séra Hildur Eir ráðin sóknarprestur
Séra Hildur Eir Bolladóttir hefur verið ráðin sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti. Séra Svavar Alfreð Jónsson, sem var sóknarprestur í 23 ár, hætti að eigin ósk um áramótin og hóf störf sem prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Það var einróma ákvörðun sóknarnefnda Akureyrar og Laugalandsprestakalls að ráða séra Hildi Eir sem sóknarprest en hún hefur starfað sem prestur við Akureyrarkirkju síðastliðin 13 ár. Við kirkjuna starfa nú prestarnir séra Hildur Eir og séra Jóhanna Gísladóttir.
Jesús stýrir skipinu
„Ég hlakka til að starfa áfram við hlið míns dýrmæta samstarfsfólks við Akureyrarkirkju við að hlúa að söfnuðinum og uppörva í gleði og sorg. Það sé dýrmætt að fá að starfa áfram í söfnuði sem maður er þegar búinn að tengjast ákveðnum tilfinninga og félagsböndum í 13 ár,“ segir Hildur Eir við Akureyri.net.
„Við Jóhanna Gísladóttir hlökkum til að takast saman á við þá áskorun að efla félagsauð í nafni Jesú Krists í samfélagi sem tekur auðvitað sífelldum breytingum. Við hlökkum til að prófa nýja hluti í bland við dýrmætar hefðir og reyna þannig að hlusta eftir og mæta þörfum safnaðarins en þegar allt kemur til alls er það nú samt Jesús Kristur sem stýrir skipinu og við fylgjum honum í bæn og trúariðkun.“
Ekki valdaembætti
Hildur Eir segir kristni í landinu ekki standa og falla með einstökum persónum „en ef allar persónur vanda sig þá auðvitað eflist kirkja og félagsauður og það er það sem við ætlum fyrst og síðast að gera í Akureyrarkirkju, að vanda okkur.“
Spurð hver munurinn sé á presti og sóknarpresti, svarar séra Hildur Eir: „Sóknarprestur er ekkert valdaembætti enda ekkert hlutverk innan kirkjunnar bundið valdi heldur knúið áfram af þjónustu og sá sem er sóknarprestur þarf kannski bara að þjóna aðeins meira! Kirkjan er ekki pýramídi eins og eitthvert fyrirtæki heldur hreyfiafl sem þarf að vera að fullu lárétt til þess að halda mikilvægu jafnvægi í viðkvæmri þjónustu.“