Fara í efni
Fréttir

Sendi hlýjar kveðjur til Grindvíkinga

Mynd frá RÚV sem birt var með kveðjnni á vef Akureyrarbæjar.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri sendi Grindvíkingum hlýjar kveðjur í dag, fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar og bæjarbúa, vegna þeirra hamfara sem nú standa yfir. Eldgos hófst snemma í morgun skammt utan við Grindavík en síðar opnaðist önnur sprunga, innan við nýlegan varnargarð, glóandi hraun rann inn í bæinn og þegar hafa þrjú íbúðarhús orðið hrauni og þar með eldi að bráð.

Kveðjan frá Ásthildi er birt á vef Akureyrbæjar og er svohljóðandi: 

Við finnum vart orð til að lýsa þeirri hryggð sem leggst yfir þjóðina, allt Ísland, nú þegar Grindvíkingar standa varnarlausir gagnvart svo ólýsanlegum og miskunnarlausum ofurkröftum náttúrunnar. Það er hörmulegt að fylgjast með glóandi hrauni lama þetta gróskumikla samfélag og leggja alla innviði í rúst.

Fyrir hönd bæjarbúa og bæjarstjórnar Akureyrar sendi ég íbúum Grindavíkur einlægar og hlýjar vinakveðjur með ósk um að allar góðar vættir veiti þeim styrk á erfiðum tímum.

Ásthildur Sturludóttir,
bæjarstjóri á Akureyri