Segja öryggi sjúklinga og starfsfólks ógnað
Hjúkrunarfræðingar á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri gagnrýna yfirstjórn sjúkrahússins harðlega í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í morgun.
Hjúkrunarfræðingarnir benda á að þeim sé í auknum mæli gert að taka við fullorðnum sjúklingum sem eigi alls ekki heima á barnadeild að þeirra mati. Þá segjast þeir ítrekað hafa upplifað leiðinleg og neikvæð samskipti.
Yfirlýsing hjúkrunarfræðinga á Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri er svohljóðandi:
„Með þessu bréfi viljum við, hjúkrunarfræðingar barnadeildar, láta í ljós óánægju okkar með þá ákvörðun yfirstjórnar Sjúkrahússins að nýta í auknu mæli barnadeildina til að sinna fullorðnu fólki. Við teljum þessi vinnubrögð ógna öryggi bæði sjúklinga og starfsfólks.
Barnadeildin á Sjúkrahúsinu á Akureyri er eina barnadeild landsins fyrir utan Barnaspítala Hringsins. Á barnadeildinni er starfrækt almenn bráða legudeild sem sinnir öllum veikindum barna að 18 ára aldri ásamt gjörgæslu fyrir nýbura.
Á deildinni starfa 2 hjúkrunarfræðingar á hverri vakt. Þá er einnig vert að minna á það, sem virðist alltaf gleymast, að hjúkrunarfræðingar deildarinnar njóta ekki aðstoðar sjúkraliða eða annarra almennra starfsmanna, þar sem enginn slíkur er ráðinn við deildina. Hjúkrunarfræðingar ganga því í verk eins og að sækja og gefa mat, þrífa rúm, svara síma og fleira sem til fellur, á vöktum utan dagvinnutíma. Auk þess sem börn sem sækja þjónustu dagdeildar á Barnadeildinni þurfa stundum þjónustu utan dagvinnutíma. Þessir 2 hjúkrunarfræðingar því einu starfsmennirnir á deildinni utan dagvinnutíma.
Hverju barni fylgja að jafnaði tveir foreldrar sem teljast einnig til okkar skjólstæðinga og þurfa líka tíma og stuðning. Auk þess sem allir sem hafa átt samskipti við börn ættu að skilja, þá tekur allt sem viðkemur umönnun barna meiri tíma og hjúkrun barna er mjög sérhæfð.
Ekkert af þessu er tekið inn í þær tölur um nýtingu og laus rúm sem sífellt er horft í. Það er það sem stjórnendur sjúkrahússins virðast eingöngu horfa á. Tölur á blaði.
Á barnadeild starfa hjúkrunarfræðingar sem hafa áhuga á hjúkrun barna og hafa með reynslu sinni sérhæft sig í þeirri hjúkrun. Hjúkrun barna á barnadeildinni er mjög fjölbreytt og tekur það langan tíma að verða öruggur í starfi. Margir af hjúkrunarfræðingum deildarinnar hafa jafnvel einungis unnið við umönnun barna í mörg ár og því óvanir að sinna fullorðnum. Auk þessu hafa hjúkrunarfræðingar barnadeildar ekki verið í forgangi á endurlífgunarnámskeið fullorðinna og fæstar okkar setið slíkt námskeið.
Deildin er lítil og starfsemin mjög sveiflukennd hvað álag varðar. Við höfum verið mjög viljugar að hjálpa til og skilið að stundum er neyð og lítið um legurými. Við skiljum að það þarf samvinnu við rekstur sjúkrahúss, erum ekkert mótfallnar því að hjálpa til og það höfum við oft gert með því að taka fullorðna sjúklinga af öðrum deildum.
Við höfum ítrekað beðið um að okkur sé í þessum aðstæðum sýndur skilningur og ekki sé ætlast til að við sinnum mjög veiku fullorðnu fólki með fjölþættan vanda og sjúkdómsástand sem við ekki þekkjum. Við getum tekið við fólki sem er sjálfbjarga, áttað og ekki með flókin heilsufarsvandamál. Það getum við þegar við teljum okkur hafa tíma, rými og mönnun til. Það er mjög sjaldan virt og höfum við ítrekað upplifað leiðinleg og neikvæð samskipti. Okkur hefur verið gert að taka við fullorðnum sjúklingum sem við treystum okkur ekki til að sinna og eiga alls ekki heima á barnadeild að okkar mati. Um þetta vinnulag viljum við fá skýrari verklagsreglur sem eru unnar í samvinnu við allar deildir, hjúkrunarfræðinga og sérfræðinga.
Það er ástæða fyrir því að sjúkrahús eru deildarskipt. Til að gera þjónustuna betri, skilvirkari, sérhæfðari og þannig reyna tryggja sem bestu umönnun og þjónustu og þar með öryggi sjúklinga. Erlendar rannsóknir sýna að það að senda sjúkling af sinni heimadeild ógnar öryggi hans því það eykur líkur á mistökum. Þess vegna ætti ekki að senda sjúklinga af sinni heimadeild nema í neyð. Velja þá líka deild og sjúklinga vel og í samvinnu við deildina sem tekur við sjúklingnum. Einnig er viðeigandi að deildir eins og lyflækningadeild og skurðlækningadeild hjálpist að og deildir eins og barnadeild og fæðingadeild hjálpist að og vinni saman. Þ.e. deildir sem eru að sinna sömu sjúklingahópum að einhverju leyti. Þannig er hægt að auka öryggi sjúklinga.
Eldra fólk er oft með fjölþættan og flókinn heilsufarsvanda og á mörgum lyfjum. Þau hafa sjúkdóma, glíma við veikindi og undirliggjandi þætti sem við erum ekki vanar að sinna á barnadeild. Þar af leiðandi verðum við kannski ekki varar við viðvörunarmerki sem starfsfólk sem er vant að sinna fullorðnu fólki mynd koma auga á og bregðast fyrr við. Það ógnar öryggi sjúklinga.
Við höfum ítrekað upplifað að fá mjög veikt eldra fólk á deildina sem hefur oftar enn einu sinni endað á gjörgæslu. Við fáum inn fullorðið fólk sem er ekki búið að fá greiningu og vinna alveg upp. Við fáum sjaldan allar upplýsingar um sjúklinginn og þeir oft veikari og eru þyngri í umönnun en okkur er sagt. Lyf fyrir fullorðna eru tekin til á heimadeild, sett í poka sem eru oft illa merktir og við þurfum að taka ábyrgð á. Við þurfum endurtekið að minna læknana á fullorðinsdeildum á að þeir eigi sjúklinga hjá okkur og ganga á eftir því að þeir komi á stofugang til þeirra. Oft eru aðstæður þannig að fullorðnir sjúklingar þurfa það mikla hjúkrun og umönnun að okkar skjólstæðingar, börnin, sitja á hakanum. Þetta er ekki góð heilbrigðisþjónusta og allt þetta ógnar öryggi sjúklinga. Við höfum endurtekið gert atvikaskráningar sem ekkert hefur verið unnið með.
Hjúkrunarfræðingar annarra deilda treysta sér sjaldan til þess að aðstoða á barnadeild og við skiljum það mjög vel. Við viljum fá þann skilning á móti. Við viljum að okkur sé treyst til að meta hvort, hvenær og hvaða sjúkling við getum tekið þegar beðið er um að leggja inn fullorðinn sjúkling á barnadeild. Alveg eins og við treystum hjúkrunarfræðingum annarra deilda til þess sama á sinni deild. Frasinn um að brjóta niður múrana milli deilda virðist bara ganga í aðra áttina. Jafnvel á meðan covid geysaði voru fullorðnir ekki lagðir inn á Barnaspítala Hringsins. Af hverju er það í lagi hér á Sjúkrahúsinu á Akureyri?
Eins og staðan er í dag er það ekki einungis í neyð sem við sinnum fullorðnum á barnadeildinni, því nú er þetta að verða normið og virðist vera stefna yfirstjórnar að nýta deildina í að sinna fullorðnum. Okkur er sagt að þetta sé það sem koma skal til að nýta öll pláss. Mikið álag, mönnunarvandi og ekki nægt rými er vandi sem Sjúkrahúsið hefur átt við í mörg ár. Ekki bara í covid faraldrinum. Það er vandi sem þarf að leysa en ekki með því að senda fullorðna ítrekað á barnadeild. Það er ekki lausnin.
Við fullyrðum að deildin, sem er ekki full mönnuð, er í hættu á að missa fleiri hjúkrunarfræðinga vegna þessa ástands. Hjúkrunarfræðingar upplifa störf sín á barnadeild vanmetin og upplifa einnig óöryggi í starfi.
Það mikilvægasta í þessu er að við upplifum mjög sterkt að öryggi sjúklinga er ógnað, barna og fullorðinna. Að auki öryggi starfsfólks. Fólk er ekki að fá góða þjónustu. Bæði börn og fullorðnir eiga skilið að fá viðeigandi þjónustu á deild sem er byggð upp og mönnuð með þeirra þarfir í huga. Þjónusta barna og fullorðinn er mjög ólík, passar ekki á sömu deild og býður upp á mistök. Við höfum ítrekað bent á þetta en á okkur er ekki hlustað.
Hver verður ábyrgur fyrir þeim mistökum sem eiga eftir að verða? Eru stjórnendur Sjúkrahússins tilbúnir að bera ábyrgð á þeim mistökum og afleiðingum sem eiga eftir að verða ef þessu vinnulagi verður viðhaldið? Með vísan til dómsmála vegna mistaka sem hafa orðið innan heilbrigðiskerfisins.
Við skorum á Sjúkrahúsið að endurskoða þetta vinnulag og finna aðra langtíma lausn á þessum vanda.
Einnig er mjög mikilvægt að stuðla að betri samvinnu og bættum samskiptum bæði milli deilda og stjórnenda við fólkið sem vinnur á gólfinu. Þessi margumtalaða samvinna sem hamrað er á þarf í eðli sínu að virka í báðar áttir og byggja á góðum samskiptum og virðingu. Þar ættu stjórnendur að sýna gott fordæmi.
Ef stjórn Sjúkrahússins ætlar sér að hafa barnadeild á Sjúkrahúsinu ætti hún að standa vörð um deildina. Við sem vinnum þar viljum fá að efla og vinna að bættri faglegri þjónustu við okkar skjólstæðinga. Við erum alltaf tilbúnar til að taka þátt í umræðum og vinnu sem felst í því að bæta velferð okkar skjólstæðinga og tryggja þeirra öryggi.
Virðingarfyllst,
Hjúkrunarfræðingar Barnadeildar Sjúkrahússins á Akureyri“