Fara í efni
Fréttir

Segja gjaldskrár hafa verið í endurskoðun

Í frétt á Akureyri.net fyrr í dag kom fram að bæjarráð hafi ákveðið í morgun að endurskoða gjaldskrár og ljúka þeirri vinnu fyrir 1. september. Þar var meðal annars brugðist við áskorun bæjarfulltrúanna Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur og Hildu Jönu Gísladóttur í grein á Akureyri.net í gær. 
 
Í afgreiðslu bæjarráðs í morgun segir að á síðustu mánuðum hafi verið unnið að útfærslu á gjaldskrárbreytingum til samræmis við ákvörðun bæjarstjórnar frá 19. mars, en hún er svohljóðandi: 

„Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu á því fyrirkomulagi sem lagt var til grundvallar aðkomu hins opinbera að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þá er ljóst að niðurstaða um langtímasamninga hefur náðst og markmið þeirra um að stuðla að minnkun verðbólgu, lækkunar vaxta sem og að auka kaupmátt heimila í landinu er mikilvæg. Akureyrarbær mun því í samræmi við áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðustu áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu og miða við að hækkun ársins 2024 verði ekki umfram 3,5%. Einnig skuldbindur Akureyrarbær sig til þess að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins í samstarfi við ríkisvaldið og með fyrirliggjandi kostnaðarþátttöku þess, frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Þá mun Akureyrarbær tryggja í húsnæðisáætlunum sínum og skipulagi nægt framboð byggingarsvæða og lóðir til skemmri og lengri tíma og hlutdeild í stofnkostnaði almennra íbúða, sem og að halda áfram því verkefni að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.“
 
Á fundi bæjarráðs voru meðal annars afgreiddar gjaldskrár leikskólagjalda, sem taka á gildi frá 1. september, og skóla- og frístundagjalda, sem gildir frá 1. ágúst. Fræðslu- og lýðheilsuráð hafði samþykkt gjaldskrárnar og vísað þeim til bæjarráðs þar sem þær voru samþykktar með þremur atkvæðum. Hilda Jana og Sunna Hlín sátu hjá við afgreiðsluna. Áður hafði Gunnar B. Gunnarsson, B-lista, setið hjá við afgreiðslu gjaldskránna í fræðslu- og lýðheilsuráði. 
 
Niðurstaða bæjarráðs í morgun var, eins og kom fram í fyrri frétt, að farið yrði í endurskoðanir á gjaldskrám og þeirri vinnu lokið fyrir 1. september.