Fara í efni
Fréttir

Segja Eflingu hafa brugðist starfsfólki

Formenn þriggja verkalýðsfélaga við Eyjafjörð harma þær aðferðir og stjórnunarhætti sem stjórn verkalýðsfélagsins Eflingar viðhefur nú undir merkjum skipulagsbreytinga. Öllum starfsmönnum Eflingar var sagt upp í gær.

Yfirlýsing sem formennirnir þrír sendu frá sér í dag er svohljóðandi:

„Undirritaðir harma þær aðferðir og stjórnarhætti sem stjórn Eflingar beitir undir merkjum skipulagsbreytinga innan félagsins. Sem atvinnurekandi hefur Efling brugðist starfsfólki sínu, bæði í orðum og gjörðum, nú síðast með hópuppsögn sem á sér ekki fordæmi innan verkalýðshreyfingarinnar. Því lýsum við yfir þungum áhyggjum yfir stöðu og líðan starfsmanna Eflingar. Ekki er gerð athugasemd við að fyrirtæki eða stéttarfélög ráðist í skipulagsbreytingar, en þær breytingar verða að vera framkvæmdar á mannlegan hátt með velferð og líðan starfsmanna í huga.

Verkalýðshreyfingin verður að fara fram með góðu fordæmi á vinnumarkaði og tryggja að aðbúnaður starfsfólks innan hennar sé með þeim hætti sem krafa er gerð um á almennum vinnumarkaði. Að öðrum kosti er hætta á að sú sérþekking sem býr í verðmætum mannauð innan hreyfingarinnar glatist.

Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni,
Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri,
Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.