Fara í efni
Fréttir

Segir Akureyrarbæ standa við allt sitt

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að sveitarfélagið hafi staðið við allt það sem lofað var í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Þetta kemur fram í grein bæjarstjórans sem Akureyri.net birtir í dag, þar sem brugðist er við skrifum Önnu Júlíusdóttur formanns verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju í gær.

„Formaður Einingar-Iðju ber fram alvarlegar ávirðingar á hendur stjórnendum Akureyrarbæjar,“ segir bæjarstjórinn; Anna saki sveitarfélagið um „svik og árás á kaupmátt fólks - en því miður á röngum forsendum.“

Bæjarstjórinn segist láta stjórnendum Norðurorku eftir að svara fyrir breytingar á gjaldskrám fyrirtækisins en bendir á, og segir lykilatriði að það kom fram, að skuldbindingar sveitarfélaga í tengslum við kjarasamningana hafi hvorki náð yfir sorphirðugjöld né gjaldskrá Norðurorku sem Anna gerði að umtalsefni í grein sinni.

Þá segir Ásthildur að margt í grein Önnu byggi á minnisblaði frá því í ágúst þegar unnið var að drögum að fjárhagsáætlun en margt hafi breyst síðan. „Akureyrarbær stóð að sjálfsögðu við sitt og lækkaði þær gjaldskrár sem stefndi í að hækkuðu umfram 3,5%. Þær breytingar voru einfaldlega dregnar til baka. Gjaldskrár sem snerta viðkvæma hópa hækka ekki meira en gert er ráð fyrir í kjarasamningum.“

Bæjarstjórinn gerir alvarlega athugasemd við þá staðhæfingu formanns Einingar-Iðju að sorphirðugjöld hækki um 57,4% „því þar er um að ræða furðulega einföldun sem líkast til er fyrst og fremst ætluð til þess að skjóta fólki skelk í bringu.“ Staðreyndin sé sú að Akureyrarbæ, eins og öðrum sveitarfélögum á Íslandi, sé skylt samkvæmt lögum að innleiða fjórflokkun úrgangs við heimahús og það kalli á verulegar breytingar á gjaldskrá. 

„Fram að þessu hefur jafnhátt sorphirðugjald verið lagt á allar íbúðir óháð kostnaði við hirðingu en eftir breytingarnar verður gjaldskráin að mínu mati réttlátari. Þá mun fólk sem býr í sérbýli yfirleitt greiða hærra gjald en áður enda er kostnaður við hirðingu við sérbýli meiri en við fjölbýli þar sem gjöldin verða lægri,“ segir Ásthildur.

Smellið hér til að sjá grein Ásthildar

Grein Önnu Júlíusdóttur frá því í gær er hér