Fara í efni
Fréttir

Sánavagn á hjólum opnaður á Akureyri

Sánavagn Mæju verður staðsettur við Nökkvahúsið til að byrja með. Gestir geta kælt sig niður eftir gufu með því að dýfa sér í sjóinn. Samsett mynd: María Páls/Unsplash Anne Nygard

Fargufur, af ýmsum toga hafa slegið í gegn í Skandinavíu og á höfuðborgarsvæðinu. Nú styttist í það að Akureyringar og nærsveitungar geti notið fargufutöfranna því til stendur að Sánavagn Mæju opni fjótlega við Nökkvahúsið.

Það er leikkonan María Pálsdóttir sem stendur á bak við þessa norðlensku fargufu. Segist hún hafa prófað Rjúkandi fargufu í Reykjavík og eftir þá upplifun vildi hún ólm fá slíkt gufubað norður. Hún heyrði í eigandanum og spurði hvort hún hygðist færa út kvíarnar og koma norður en hún hvatti hana bara til að græja þetta sjálf! „Þá fór ég á stúfana og auglýsti eftir hjólhýsi en fann ekki neitt nógu gott og þá óx mér líka í augum að fara að innrétta hjólhýsi sem gufubað. En svo var mér bent á Litla saunahúsið sem er annað fargufufyrirtæki í höfuðborginni. Á bak við það stendur kona sem keypti sér gufubað og skellti því á kerru og er að gera það sama og Rjúkandi fargufa. Ég hef líka farið í gufubað hjá henni og það var geggjað. Ég sá að hennar hugmynd að útfærslu á gufunni þ.e.a.s gufubaðshús á kerru hentaði mér betur. Ég er búin að panta gufubaðið og það er að koma hingað norður um næstu mánaðarmót. Þá á ég bara eftir að kaupa mér kerru og smella þessu ofan á,“  segir María spennt fyrir verkefninu.

Söfnun á Karolina Fund

Til þess að klára verkefnið hefur María kallað eftir aðstoð frá almenningi í gegnum söfnun á Karolinafund. Sjá hér. Með því að styðja verkefnið getur fólk keypt sér fyrirfram upplifun í Sánavagni Mæju. „Ég er búin að fá leyfi hjá Siglingaklúbbnum Nökkva varðandi það að fá að vera með sánahúsið þar til að byrja með. En þar sem gufubaðið er á kerru þá get ég farið hvert sem er með það. Ég get t.d skroppið til Dalvíkur og svo er hægt að panta mann eitthvert. Þetta er bara rosalega spennandi og bíður upp á endalausa möguleika,“  segir María og heldur áfram: „Þetta hefur alveg sprungið út í Reykjavík og á Norðurlöndunum er líka allt vaðandi í þessu, bæði ferðagufum, gufuböðum sem eru staðsett á dásamlegum stöðum niður við sjó og fljótandi gufuböðum. Og það er líka afar spennandi að vera bara með pramma fljótandi á Pollinum og hoppa út í sjóinn og fara í gufu. En það er hugmynd sem einhver annar getur tekið, ég ætla að láta sánavagninn duga.“

Fargufur af ýmsum toga hafa verið vinsælar á Norðurlöndunum og nú styttist í það að Akureyringar geti notið fargufutöfranna.. Mynd: Unsplash/Clay Banks

Ýmsar útfærslur á heimsókn í sánavagninn

Að sögn Maríu fer heimsókn í sánavagninn þannig fram að gestir koma sér vel fyrir í heitri gufunni sem er kynt með viðarofni. Gusumeistari (sá sem stjórnar gufubaðinu) skvettir vatni á steinana og keyrir upp hitann í um 15 mínútur. Þá sveiflar viðkomandi handklæði eða blævæng í áttina að fólki til að auka hitann hjá hverjum og einum. Á milli lota stíga gestir út í náttúruna og kæla sig í smá stund, hvort sem er með því að dýfa sér í sjóinn eða með því að láta kalt loft leika um sig. Þetta er svo endurtekið þrisvar sinnum. Segist María sjá fyrir sér að bjóða upp á opna gufutíma en einnig einkagufur t.d. fyrir hópa. Þá sé ekki ólíklegt að gufan verði líka opin í tengslum við sjósundsdeild Nökkva sem fer reglulega í sjóinn frá Nökkvahúsinu.

Þá segir María að hægt sé að bjóða upp á ýmsar útfærslur á sánaheimsókninni, það er t.d. hægt að blanda ilmkjarnaolíum útí vatnið sem skvett er á heita steinana og þá er líka hægt að spila mismunandi tónlist sem eykur upplifunina. „Þetta er hrikalega hressandi og endurnærandi. Það er eitthvað magnað við það að stíga inn í gufuna og kæla sig svo utandyra. Það er engin skylda að dýfa sér í sjóinn, það er líka allt í góðu að leggjast bara í grasið eða láta loftið kæla sig eða velta sér upp úr snjónum,“ segir María sem vonast til þess, ef söfnunin gengur vel á Karolina Fund, að Sánavagn Mæju verði komið í notkun fyrir aðventuna.