Fara í efni
Fréttir

Samvinnuneistinn kviknaði í covid

Sóknarprestarnir á Akureyri, Sindri Geir Óskarsson í Glerárkirkju og Hildur Eir Bolladóttir í Akureyrarkirkju. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarkirkja og Glerárkirkja auglýsa sameiginlegt helgihald um áramótin, en það eru þó ekki fyrstu skrefin sem kirkjurnar stíga saman í samvinnu og samstarfi. Samstarfið hefur verið að aukast undanfarin ár og á það sér meðal annars rætur í helgihaldi í heimsfaraldrinum. 

Séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur Akureyrarprestakalls, skrifaði stuttan pistil á Facebook og deildi auglýsingu kirknanna um helgihald um áramótin. „Samvinna, sameining, samstaða eru orð framtíðarinnar,“ skrifar séra Hildur Eir. „Við í Akureyrar- og Glerárkirkju erum spennt fyrir auknu samstarfi kirknanna. Á jólum eru kirkjurnar báðar þéttsetnar við allar hátíðarmessur, en um áramót er og hefur aldrei verið sama mæting. Þannig hefur það alltaf verið þótt helgihaldið þá sé alveg dýrðlegt. Við drögum ályktanir og vinnum saman,“ skrifar hún einnig.

Aftansöngur verður í Glerárkirkju á gamlárskvöld, en á nýársdag verður messa í Akureyrarkirkju. Þar mun Þórgnýr Dýrfjörð, heimspekingur og sóknarnefndarmaður, predika. „Ég veit að það verður gott að koma, bæði í Glerár- og Akureyrarkirkju þar sem við erum öll eitt í Kristi Jesú,“ skrifar séra Hildur Eir.

Samvinnuneisti sem hefur fengið að loga

Akureyri.net heyrði í séra Sindra Geir Óskarssyni, sóknarpresti Glerárprestakalls, og spurði út í samstarfið, ástæður þess að kirkjurnar sameinast um helgihald og fleira. Sindri Geir segir Hildi Eir hafa verið mjög drífandi í að byggja upp samstarfið á milli kirknanna. „Það er mjög góður prestahópur á Akureyri og mikill samstarfs- og samvinnuvilji. Ég held að það sé stóri punkturinn, að við finnum það öll og fundum það í covid þegar við vorum í miklum samskiptum og miklu samstarfi,“ segir Sindri Geir. Hann segir það hafa kennt þeim mjög mikið um mikilvægi þess að vinna saman og hjálpast að. „Þegar ég horfi aðeins á þetta þá er rótin þar,“ segir hann og rifjar upp að í heimsfaraldrinum hafi prestarnir verið að hittast nokkrum sinnum í mánuði á rafrænum fundum til að ráða ráðum sínum, kirkjurnar voru með sameiginlegan sunnudagaskóla og messur í útsendingu. „Þar örugglega kviknaði þessi samvinnuneisti sem við erum búin að leyfa að loga síðan,“ segir Sindri Geir.

Almennt um ástæður samstarfsins segir Sindri Geir að flest gangi betur þegar við vinnum saman. „Það er ekki neinn rígur á milli þessara kirkna þó við séum staðsett sitthvoru megin við ána. Við leyfum Þór og KA að sjá um ríginn,“ segir hann og hlær við.

Tvær kirkjur sem vinna að því sama

„Ég held að þetta sé bara heilbrigt, að við erum tvær kirkjur sem eru báðar þjóðkirkjukirkjur. Við erum að vinna að því sama, sem er að vera til staðar fyrir samfélagið á Akureyri. Þá er bera allt sem mælir með því að við séum að auka samstarf okkar. Það höfum við verið að gera undanfarin ár,“ segir Sindri Geir. Kirkjurnar hafa verið með sameiginlega foreldramorgna, farið saman í ferðir með fermingarhópana og með sameiginlegt skipulag á vöktum fyrir sjúkrahús, elliheimili og lögreglu. „Þannig að það hefur verið eitthvað samstarf. En núna undanfarin þrjú ár höfum við verið að byggja það meira upp.“

Kirkjurnar gerðu til dæmis tilraun þarsíðasta sumar og voru með sameiginlegt helgihald, en eru núna komnar í ákveðinn farveg með aukið samstarf á messudögum þegar það er „engin glymrandi messusókn,“ eins og Sindri Geir orðar það. Hann nefnir áramótin sem dæmi, en kirkjurnar skiptast einnig á með helgihald á uppstigningardeginum. Hann bendir einnig á guðsþjónustu sem er mörgum mikilvæg, á sjómannadaginn. Nú skiptast kirkjurnar á sjómannadagsmessunni. Hún var í Glerárkirkju á árinu sem er að líða og verður í Akureyrarkirkju á komandi ári.

Kirkjurnar hafa ekki verið að auglýsa sérstaklega þetta sameiginlega helgihald og aukið samstarf, þar til nú að það er auglýst sérstaklega að aftansöngur á gamlársdag verður í Glerárkirkju og nýársmessan í Akureyrarkirkju. Sindri Geir rifjar upp að hann hafi predikað í Glerárkirkju á nýársdag 2016, þá sem guðfræðinemi. Fjölda gesta, fyrir utan kórinn, segir hann að hafi mátt telja á fingrum beggja handa og kirkjusóknin hafi örugglega verið svipuð í Akureyrarkirkju. „Það eru bara ákveðnir dagar, það er ákveðið fólk sem vill sækja þessar stundir og við erum að veita þarna þjónustu. Þá er bara jákvætt að við sameinumst um að eiga góða og betur sótta stund á einum stað frekar en að vera deila hópnum hér á Akureyri sem vill sækja þessar messur.“