Samstöðufundur í Lystigarðinum
Nemendur framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, Menntaskólans og Verkmenntaskólans, fjölmenntu á samstöðufund í Lystigarðinum í morgun. Nemendafélög skólanna stóðu fyrir fundinum til að sýna nemendum Menntaskólans við Hamrahlíð stuðning í kjölfar frétta um óánægju þeirra vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda MH í nokkrum kynferðisofbeldismálum sem komið hafa upp í skólanum.
Skólastjórnendur MH báðu nemendur afsökunar í yfirlýsingu í gær, þar sem harmað var að nemendur hafi upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem ekki hafi verið tekið á með viðunandi hætti.
Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina héldu nemendur MH sínu striki og gengu út úr tímum klukkan 11.00 og söfnuðust saman utan við skólann í mótmælaskyni. Nemendur MA og VMA gengu yfirgáfu skólastofur á sama tíma og skunduðu í Lystigarðinn, þar sem lesin var yfirlýsing til stuðnings MH-ingum og boðið upp á tónlistaratriði.
Birgir Orri Ásgrímsson, forseti Hugins, skólafélags MA, les yfirlýsingu til stuðnings MH-ingum í morgun. Við hlið hans er Steinar Bragi Steinarsson, formaður Þórdunu, nemendafélags VMA.