Samstarf um búfræði og stúdentspróf
Verkmenntaskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri (Lbhí) hafa hafið samstarf sem miðar að því að nemendur eigi þess kost að útskrifast með stúdentspróf frá VMA og búfræðipróf frá LbhÍ. Áhersla námsins í VMA er á náttúruvísindagreinar til undirbúnings fyrir búfræðinám í LbhÍ auk undirbúnings fyrir háskólanám að loknu námi í LbhÍ. Þetta kemur fram á vef VMA.
Nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og skal umsækjandi hafa náð 18 ára aldri og lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla. Þá er gert ráð fyrir að umsækjendur um búfræðinám á Hvanneyri hafi að minnsta kosti eins árs reynslu af störfum í landbúnaði sem skólinn viðurkennir.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, fagnar samstarfinu, sem hún segir hafa komið til í framhaldi af formlegu erindi Félags eyfirskra kúabænda til skólans um möguleika á því að VMA setti upp undirbúningsnám fyrir þá nemendur sem stefni á búfræðinám við Landbúnaðarháskólann. Sigríður Huld segir ekki hafa verið vandkvæðum bundið fyrir skólann að bregðast við þessari ósk enda hafi hann lengi boðið upp á viðbótarnám til stúdentsprófs fyrir nemendur á starfsnámsbrautum skólans.
Nánar hér á heimasíðu Verkmenntaskólans.