Fara í efni
Fréttir

Samningur um framlag vegna skylduskila

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, við undirritun samnings um framlag vegna skylduskila Amtsbókasafnsins. Mynd: Akureyri.is.

Undirritaður hefur verið samningur um að menningar- og viðskiptaráðuneytið veiti Akureyrarbæ 30 milljóna króna styrk sem ætlað er að styðja við hlutverk Amtsbókasafnsins sem er ein af skylduskilastofnunum landsins. Sagt er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

Gildistími samningsins er 2023-2025 og greiðir ráðuneytið samkvæmt honum árlega 10 milljónir króna til Akureyrarbæjar vegna skilaskyldu Amtsbókasafnsins, samtals 30 milljónir króna.

Samningurinn var undirritaður 13. desember í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Á vef Amtsbókasafnsins er þetta að vinna um skylduskil:

  • Amtsbókasafnið nýtur þeirrar sérstöðu að hafa yfir að ráða skylduskilum. Samkvæmtlögum (nr. 20/2002) sem tóku gildi 1. janúar 2003, er safnið annað af tveimur skylduskilasöfnum hér á landi. Safnið hefur þá skyldu að varðveita eitt eintak af skilaskyldu efni sem best, tryggja öryggi þess og viðhald.
  • Efni sem flokkast undir skylduskil er því ekki lánað út en eingöngu lánað á lestrarsal. Afgreiðsla þess fer fram í afgreiðslunni á 1. hæð.
  • Skylduskil eru verk sem gefin eru út eða birt hér á landi. Þar með teljast verk sem framleidd eru erlendis ef þau eru sérstaklega ætluð til dreifingar á Íslandi.
  • Undir skylduskil flokkast meðal annars bækur, barnabækur, kennslubækur, hljóðbækur, tímarit, árbækur, ársskýrslur, fréttabréf, sjónvarpsdagskrár, glanstímarit, dagblöð, héraðsblöð, kosningablöð, skólablöð, myndablöð og hverfablöð.
  • Skýrslur, landakort, veggspjöld og smáprent, t.d. bæklingar, auglýsingar, verðlistar, leikskrár, sýningarskrár, tónleikaskrár, póstkort, jólakort og spil.
  • Til er kynningarrit um lög um skylduskil á vegum Landsbókasafns Íslands Háskólabókasafns og geta áhugasamir fengið að skoða það rit í upplýsingaþjónustunni.

Safninu berst á ári hverju mikið magn af skylduskilum. Á bilinu 70-100 kassar á ári. Þessi skylduskil dreifast um geymslur safnsins og fer töluverður hluti þeirra í geymslu í kjallara safnsins.