Fara í efni
Fréttir

Samningar samþykktir með miklum yfirburðum

Skammtímakjarasamningar sem verslunarfólk og samflot iðnaðar- og tæknimanna gerðu við Samtök atvinnulífsins voru samþykktir með miklum yfirburðum í atkvæðagreiðslum félagsmanna um alla land. Rafrænni kosningu lauk í dag.

Á vef Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri kemur fram að niðurstöður kosninganna voru afgerandi hjá félagsmönnum FMA. „Kjarasamningurinn var samþykktur af þeim og yfir heildina kusu tæp 40,2% félagsmanna og 80,25% samþykktu samninginn sem er gríðarlega hátt hlutfall,“ segir á vef FMA.

„Þessi niðurstaða sýnir svo ekki verður um villst að þeir sem vinna eftir samningnum eru sáttir við þá vegferð sem framundan er en hér tekur samningur við af samningi og þetta er stuttur samningur og aðfararsamningur að lengri samningi sem skiptir miklu máli líkt og formaður hefur nefnt í heimsóknum í fyrirtæki og í pistli formanns.“

Pistilinn sem um ræðir skrifaði Jóhann Rúnar Sigurðsson 17. desember og mælti með samningnum. Hér er pistillinn.

Hjá Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var samningurinn samþykktur með 90,82% greiddra atkvæða.

„Alls voru 1.905 á kjörskrá Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, þar af nýttu 523 atkvæðisrétt sinn og kjörsókn því 27,45%. Alls samþykktu 475 samninginn – 90,82% þeirra sem kusu, 41 hafnaði samningnum – 7,84% og 7 tóku ekki afstöðu – 1,34%,“ segir á vef félagsins.

„Samningur um kaup og kjör starfsmanna við afgreiðslu- og þjónustustörf á bensínafgreiðslustöðum, sem er hluti af aðalkjarasamningi LÍV/FVSA við SA, er þar með einnig samþykktur.“

Atkvæðagreiðslu um nýjan samning við Félag atvinnurekenda lauk einnig í dag og var sá samningur samþykktur með 100% greiddra atkvæða. Alls voru 36 félagsmenn FVSA sem fá laun greidd samkvæmt þeim samning á kjörskrá og kusu 16 þeirra öll með samningnum, eða 44.44%.