Samið um smíði kirkju í Grímsey
Sóknarnefnd Miðgarðakirkju hefur samið við smíðaverkstæðið Loftkastalann um smíði nýrrar kirkju í Grímsey. Miðgarðakirkja brann til kaldra kola í haust, eins og mörgum er án efa í fersku minni.
Undirbúningur að byggingu nýrrar kirkju er vel á veg kominn, að því er segir í tilkynningu frá Örnu Björgu Stefánsdóttur, verkefnastjóra hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, sem mun hafa yfirumsjón með verkefninu. Vinna við hönnun stendur yfir og Hjörleifur Stefánsson arkitekt hefur verið ráðinn byggingarstjóri. „Allir þessir aðilar eiga það sameiginlegt að hafa komið að minjavörsluverkefnum og endurgerð gamalla húsa með einum eða öðrum hætti,“ segir í tilkynningunni.
„Nýja kirkjan mun hafa augljósa skírskotun til þeirrar eldri en verður aðeins stærri vegna nútíma krafna. Einnig er horft til þess að nýja kirkjan nýtist til fleiri athafna en helgihalds. Áætlað er að smíða hana að hluta til í landi en reisa hana síðan í Grímsey í sumar.“
Viðamikið verkefni
„Bygging nýrrar kirkju er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika. Þegar hafa safnast fjármunir til byggingar hinnar nýju kirkju og eru eyjaskeggjar afar þakklátir öllum þeim sem verkefninu hafa lagt lið. Þeir standa þó frammi fyrir þeirri áskorun að enn vantar töluvert fjármagn til uppbyggingarinnar,“ segir í tilkynningunni.
- Þeim sem vilja leggja söfnun fyrir nýrri kirkju lið er bent á reikning Miðgarðakirkju, 565-04-250731, kt. 4602692539
Við Miðgarðakirkjugarð í Grímsey. Frá vinstri Arna Björg Bjarnadóttir verkefnisstjóri, Inga Lóa Guðjónsdóttir og Hilmar Páll Jóhannesson frá Loftkastalanum, Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Alfreð Garðarsson sóknarnefndarformaður. Ljósmynd: Halla Ingólfsdóttir.