Fara í efni
Fréttir

Samið um síðari hluta byggingar Krummakots

Sindri og Hreiðar Hreiðarssynir ásamt Finni Yngva Kristinssyni sveitarstjóra við undirritun samnings. Mynd: esveit.is.

Samið hefur verið um byggingu síðari áfanga leikskólans Krummakots í Eyjafjarðarsveit. Tvö tilboð bárust og hefur Eyjafjarðarsveit samið við B. Hreiðarsson ehf. um verkið. Áætlað er að starfsemi leikskólans geti flutt í nýtt húsnæði snemma árs 2025. Kostnaðaráætlun síðari áfangans var 633 milljónir króna, en tilboð B. Hreiðarssonar ehf. var 7% yfir þeirri áætlun.

Fram kemur á heimasíðu sveitarfélagsins að verkið hafi verið boðið út í tveimur áföngum og fyrri áfanga sé þegar lokið, gólfplata og lagnakjallari séu tilbúin. Síðafi áfanginn felst í að reisa bygginguna og ganga frá henni „svo unnt sé að flytja starfsemi leikskólans Krummakots yfir í nýtt og glæsilegt húsnæði þar sem mögulegt verður að tengja starfsemi leik- og grunnskóla á betri og skilvirkari máta,“ eins og segir í fréttinni.

Gert er ráð fyrir að ný leikskólabygging rúmi yfir 110 börn á fimm deildum, sem eru 40% fleiri pláss en nemendur Krummakots fylla í dag.