Samfylkingin með opinn fund um heilbrigðismál
Samfylkingin heldur opinn fund um heilbrigðismál í hádeginu í dag á Múlabergi á Akureyri. Hann hefst kl. 12.00, öllum er velkomið að koma og taka þátt, segir í tilkynningu frá flokknum.
Á meðal gesta verða Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis og Sindri Kristjánsson fulltrúi úr stýrihópi flokksins um heilbrigðismál og öldrunarþjónustu.
„Ert þú með sérþekkingu í heilbrigðismálum eða reynslu af gólfinu? Eða ertu almennur borgari sem vill sjá breytingar til hins betra í heilbrigðismálum á Íslandi? Þá viljum við fá þig með í samtalið.“
Hátt í fjörutíu fundir
„Samfylkingin stendur nú fyrir samræðum um heilbrigðismálum um land allt. Málefnastarf flokksins er með nýju sniði og heilbrigðismálin verða í forgrunni frá mars og fram á haust 2023. Vinnan hefst með hátt í fjörutíu opnum fundum með fólkinu í landinu. Á hverjum fundi verða fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingarinnar um heilbrigðismál og öldrunarþjónustu auk forystufólks flokksins, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum.“
Í tilkynningu segir að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar leggi þunga áherslu á málefnastarfið og bindi miklar vonir við vinnuna sem nú er að hefjast: „Útkoman á að vera verklýsing fyrir næstu ríkisstjórn; forgangsröðun og skýr pólitík; verkefnalisti frá fyrstu 100 dögunum og upp í fyrstu tvö kjörtímabilin í ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar,“ sagði Kristrún í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi í vor.