Fara í efni
Fréttir

Samfylking með þrjá í fyrstu tölum

Flokkun atkvæða í Norðausturkjördæmi hófst nokkru fyrir lokun kjörstaða, en reglum samkvæmt má talning þó ekki hefjast neins staðar fyrr en kjörstöðum hefur alls staðar verið lokað. Hér er sturtað úr kjörkössum í Brekkuskóla á Akureyri fyrr í kvöld. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Samfylkingin fengi þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi ef lokatölur verða í samræmi við þær fyrstu sem Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins, las upp skömmu fyrir kl. 23 í kvöld. Talin hafa verið 2.000 atkvæði og því mikið af atkvæðum eftir enn. Ekki kom fram í fyrstu tölum hve mörg atkvæði voru greidd í kjördæminu.

Á kjörskrá: 31.039
Atkvæði greiddu: ?
Atkvæði talin: 2.000

B – listi Framsóknarflokks – 259 atkvæði - 12,94% - 2 þingmenn
C – listi Viðreisnar – 173 atkvæði - 8,65% - 1 þingmaður
D – listi Sjálfstæðisflokks – 318 atkvæði - 15,9% - 2 þingmenn
F – listi Flokks fólksins – 291 atkvæði - 14,55% - 1 þingmaður
J – listi Sósíalistaflokks Íslands – 61 atkvæði - 3,05%
L – listi Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt – 14 atkvæði - 0,7%
M – listi Miðflokksins – 275 atkvæði - 13,75% - 1 þingmaður
P – listi Pírata – 34 atkvæði - 1,7%
S – listi Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands – 455 atkvæði - 22,75% - 3 þingmenn
V – listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs – 86 atkvæði - 4,3%  

Auðir seðlar voru 34, enginn ógildur.

Annar þingmaður Framsóknarflokksins er samkvæmt þessum tölum landskjörinn (jöfnunarsæti). Næsti frambjóðandi inn miðað við þessar tölur er Katrín Sif Árnadóttir, sem var í 2. sæti á lista Flokks fólksins.

Samfylkingin bætir mestu við sig frá síðustu kosningum, Flokkur fólksins næstmestu, síðan Miðflokkurinn og Viðreisn. Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir og Píratar tapa mestu fylgi frá kosningunum 2021 miðað við þessar fyrstu tölur. 

Sturtað úr kössum upp úr kvöldmat

Um kvöldmatarleytið í kvöld voru fyrstu kjörkassar úr Norðausturkjördæmi fluttir á talningarstað í Brekkuskóla á Akureyri, sturtað úr kössum og talningarfólk lokað af til að hefja flokkun atkvæða. Talning gat svo hafist kl. 22 þegar öllum kjörstöðum um allt land hafði verið lokað. Myndirnar tók Þorgeir Baldursson.