Fara í efni
Fréttir

Sala fasteigna í Skjaldarvík undirbúin

Stefán Jónsson stofnaði Skjaldavíkurheimilið árið 1943 en heimilið gaf hann Akureyrarbæ árið 1965. Þar var lengi vel rekið öldrunar- og hjúkrunarheimili en undanfarin 12 ár hefur þar verið rekið gistiheimili og ferðaþjónusta. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarbær hyggst selja eignir í Skjaldarvík. Undirbúningur sölu er hafinn og vonir standa til þess að eignirnar verði auglýstar til sölu fljótlega.

Að sögn Dans Jens Brynjarssonar, sviðsstjóra fjársýslusviðs hjá Akureyrarbæ, er ekki verið að selja jörðina heldur aðeins mannvirki sem áður voru nýtt undir ferðaþjónustu í Skjaldarvík og lóðarskika í kringum þau mannvirki. Húsnæði sem tengist Hlíðarskóla verður ekki selt. „Það eru þarna mannvirki sem ekki nýtast bænum og við viljum gjarnan selja þau,“ segir Dan og vísar í samþykkt bæjarráðs frá 18. nóvember 2021 um að mannvirki, sem ekki eru í notkun undir starfsemi bæjarins, verða seld við lok leigusamninga um eignirnar.

„Nú er verið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu. Það þarf að gera lóðasamninga um eignirnar í samstarfi við Hörgársveit o.fl. Þannig að þó það sé búið að marka þessa stefnu þá eru þessar eignir ekki komnar í sölu alveg strax, en vonandi fljótlega,“ segir Dan.

Hlíðarskóli í Skjaldarvík. Húsnæði sem tengist skólanum verður ekki selt.

Leigusamningi rift

Lengi vel var rekið öldrunar- og hjúkrunarheimili í Skjaldarvík en frá árinu 2010 hefur fyrirtækið Concept ehf. rekið þar ferðaþjónustu. Leigusamningur á milli Akureyrarbæjar og Concept ehf. átti að gilda út árið 2023 en bærinn rifti samningnum síðasta sumar og leigutakar skiluðu húsnæðinu af sér síðasta haust. Að sögn Dans var samningnum rift vegna vanefnda leigutaka. Eigendur Concept ehf. voru ekki sáttir og stefndu Akureyrarbæ vegna ágreiningsins til Héraðsdóms. Þar er málið til meðferðar og má vænta þess að málflutningur í málinu fari fram fyrir sumarleyfi.