Fara í efni
Fréttir

Saga skipasmíða verði varðveitt í Wathnehúsinu

Sigfús Ólafur Helgason fyrir utan Wathnehúsið í gær þegar skrifað var undir samning við Elvar Þór Antonsson um smíði líkans af Húna II. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri, ber þá von í brjósti að sjávarútvegshluti safnsins, sem og saga skipasmíða á Akureyri, verði í framtíðinni í Wathnehúsinu sem staðið hefur á lóð Iðnaðarsafnsins síðustu tvo áratugi.

Í þessu merka húsi, Wathnehúsinu, var skipasmíðastöð KEA lengi starfrækt og þar var m.a. eikarskipið Húni II smíðað. Sigfús skrifaði í gær undir samning við Elvar Þór Antonsson um smíði líkans af Húna og skoraði við það tækifæri á bæjaryfirvöld á Akureyri „að leggja nú þegar til upphafsfjármagnið sem þarf í að koma húsinu á varanlegan grunn hér við Iðnaðarsafnið og í framtíðinni verði stefnt að því að sjávarútvegshluti sem og skipasmíðaiðnaðarsaga Akureyrar, svo stór og merkileg sem hún er, verði varðveitt hér í Wathnehúsinu.“

Húsið geymir mikla sögu

Sigfús sagði ennfremur: „Það er einmitt táknrænt að við skulum skrifa undir samning um byggingu líkansins af Húna hér við stafninn á þessu húsi, Wathnehúsinu, húsinu sem hýsti skipasmíðastöð KEA í áratugi á Oddeyrartanga, og örugglega hafa fyrstu já og mörg handbrögð við smíði Húna fyrir tæpum 60 árum verið unnin hér inni í þessu húsi. Þetta hús geymir því mikla sögu ekki síður en skipin sem þar voru smíðuð og það er mikill vilji okkar og draumur og að þetta hús verði varðveitt og endurbyggt í upprunalegri mynd og jafnvel taki aftur við því hlutverki sem það hafði á Oddeyrinni, vera verkstæði þeirra sem vilja dytta að bátum sínum, lagfæra þá og þar með vernda þetta merkilega hús sem byggt var á þar síðustu öld, eða árið 1895,“ sagði Sigfús í gær. 

  • Húsið reisti Ottó Wathne árið 1895 á Oddeyrartanga og var það í upphafi notað fyrir síldarverkun. Akureyrarbær eignaðist húsið í kringum 1930 og það var komið í eigu Kaupfélags Eyfirðinga skömmu síðar. Húsið er um 250 fermetrar að grunnfleti, hæð og ris, og þar var lengi rekin skipasmíðastöð KEA sem fyrr segir. Húsið, sem var þá í eigu Norðlenska, var flutt af lóðinni og að Iðnaðarsafninu á Krókeyri árið 2002.

Líkan afhjúpað á 60 ára afmæli Húna II

Líkanið mun standa á gamalli hurð úr Húna