Saga Iðnaðarsafnsins í núverandi mynd á enda
„Í dag varð það enda[n]lega ljóst að rekstur Iðnaðarsafnsins á Akureyri eins og hann hefur verið á undanförnum tæpum 25 árum, er komin[n] að endamörkum.“
Þannig hefst pistill sem birtist á Facebook síðu Iðnaðarsafnsins í kvöld undir yfirskriftinni Saga Iðnaðarsafnsins á Akureyri í núverandi mynd er á enda.
Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, sagði við Akureyri.net að á fundi forsvarsmanna Iðnaðarsafnsins og fulltrúa Akureyrarbæjar í dag hafi verið rædd sú áhersla, sem sett er fram í nýlegri safnastefnu bæjarins, að varðveita ákveðið tímabil iðnaðarsögu bæjarins og hvernig hægt væri að sameinast um það verkefni.
Bæjarráð ályktaði á dögunum um mögulega sameiningu Iðnaðarsafnsins og Minjasafnsins. Spurð hvort það væri sennilegasta niðurstaðan svaraði Halla Björk því í dag að vilji bæjarins stæði til þess og í dag hefði verið rætt um að hefja það samtal.
Óljóst hvort opið verði eftir mánaðamót
Í áðurnefndri yfirlýsingu á Facebook síðu Iðnaðarsafnsins segir ennfremur:
„Vilji og ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar er að unnið verði að sameiningu við Minjasafnið á Akureyri og ennfremur verði hætt að safna áfram munum úr sögu Akureyrar, umfram einhver óskilgreynd ár á síðustu öld.
Einkum verði horft til áranna þegar iðnaður var í mestum blóma hér og þá einhverra sérstakra fyrirtækja en ekki verði haldið áfram að varðveita og safna í heild sinni iðnaðarsögu Akureyrar á nýrri öld.
Nokkuð ljóst er að Iðnaðarsafnið verður ekki opið á ársgrundvelli eins og verið hefur og muni þá væntanlega verða horft einkum til sumaropnunar og eða einstakra sýninga.
Á þessu stigi er einnig alveg óljóst hvort og þá með hvaða hætti safnið verði opið eftir 1. mars n.k.
Um þessa ákvörðun bæjaryfirvalda ætlum við starfsmenn og hollvinir safnsins ekki að tjá okkur að sinni, en munum síðar gefa út sameiginlega yfirlýsingu.“
Vilji til samstarfs eða sameiningar
Bærinn leggi til 7,5 milljónir ella verði Iðnaðarsafninu lokað
_ _ _
ÚR SAFNASTEFNUNNI
Um málefni Iðnaðarsafnsins segir í áðurnefndri safnastefnu Akureyrarbæjar:
Kannaður verður fýsileiki þess að Iðnaðarsafnið verði hluti af sameinuðu sögu- og minjasafni. Verði það ekki að veruleika verða skoðaðir kostir þess að það sameinist Minjasafninu á Akureyri. Markmiðið er vernda einstaka iðnaðar- og atvinnusögu Akureyrar sem Iðnaðarsafnið hefur haldið utan um og miðlað. Mikilvægt er að Akureyrarbær styðji við varðveislu og sýnileika þessarar sögu til framtíðar með auknum framlögum til starfseminnar.