Fara í efni
Fréttir

Sæmræmdu prófunum aflýst

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að aflýsa hefðbundnum samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem ráðgert var að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku. Þessi ákvörðun byggir fyrst og fremst á hagsmunum nemenda og sjónarmiðum skólasamfélagsins, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu í kvöld.

„Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku hinn 8. mars og var prófum í ensku og stærðfræði þá frestað um nokkra daga. Að vel athuguðu máli telur Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snurðulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti," segir í tilkynningu.

Tekið er fram að ef nemendur vilja geti þeir tekið könnunarpróf í viðkomandi greinum á tímabilinu 17. mars - 30. apríl nk.

„Núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa er komið á endastöð. Grundvallarbreyting á samræmdu námsmati hefur verið í undirbúningi, þar sem markmiðið er að tryggja betur hagsmuni nemenda og þarfir þeirra fyrir skýrt námsmat,“ er haft eftir mennta- og menningarmálaráðherra í tilkynningunni.

Unnið hefur verið að tillögum um framtíðarsýn fyrir samræmt námsmat og skilaði vinnuhópur skipaður af ráðherra skýrslu um málið í fyrra. Hópurinn lagði þar m.a. til að þróuð yrðu heildstæð matstæki fyrir skóla, í mörgum námsgreinum, sem koma skyldu í stað samræmdra könnunarprófa. Þar yrði áhersla á fjölbreytt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni, ásamt auknu valfrelsi skóla til að nýta sér þau.

„Námsmat er mikilvægt verkfæri til þess að efla starfið í menntakerfinu – til að hvetja nemendur og gefa þeim upplýsingar um hvar þeir standa, fyrir kennara til þess að mæla árangur af sínum aðferðum og áherslum og fyrir skólastjórnendur og menntayfirvöld til þess að fylgjast með þróun mála. Okkar er að tryggja að námsmat sé gagnlegt, um það ríki sátt og skilningur og að áherslur séu í samhengi við aðalnámskrá. Við viljum stuðla að skýrri og skjótri endurgjöf fyrir nemendur og kennara og tillögur hópsins styðja það markmið okkar,“ segir ráðherra.