Fara í efni
Fréttir

SA með sigur í fyrri leik helgarinnar

Úr leik SA og SFH fyrr í vetur. Myndin er fengin af Facebook-síðu hokkídeildar SA.

SA Víkingar, karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, vann lið Skautafélags Hafnarfjarðar (SFH) í Toppdeildinni og eru með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar þrátt fyrir að hafa leikið færri leiki en hin liðin.

Leikurinn í dag var heimaleikur Skautafélags Hafnarfjarðar (SFH), en leikinn á Akureyri þar sem ekki er skautasvell til staðar í Hafnarfirði. SA náði þriggja marka forystu í fyrsta leikhluta með mörkum Una Blöndal, Jóhanns Más Leifssonar og Orms Jónssonar. Staðan getur hins vegar breyst fljótt í hokkíinu og um miðjan annan leikhluta hafði SFH skorað tvö mörk og munurinn kominn niður í eitt mark. Það voru hins vegar SA Víkingar sem skoruðu mörkin í þriðja leikhlutanum og tryggðu sigurinn, fyrst skoraði Ormur fjórða mark SA og sitt annað mark og síðan Heiðar Gauti Jóhannsson fimmta markið skömmu fyrir leikslok.

Með sigrinum í dag styrkti lið SA stöðu sína á toppi Toppdeildar karla, er með 27 stig eftir 12 leiki, en SR hefur 23 stig eftir 14 leiki.

SFH

Mörk/stoðsendingar: Kristján Gunnlaugsson 1/0, Steinar Veigarsson 1/0, Björn Sigurðarson 0/2, Gunnlaugur Guðmundsson 0/1, Styrmir Maack 0/1.
Varin skot: Radek Haas 52 (91,2%).
Refsimínútur: 14.

SA

Mörk/stoðsendingar: Ormur Jónsson 2/0, Uni Steinn Blöndal 1/1, Jóhann Már Leifsson 1/0, Heiðar Gauti Jóhannesson 1/0, Orri Blöndal 0/2, Birkir Einisson 0/2, Andri Freyr Sverrisson 0/1, Gunnar Aðalgeir Arasn 0/1, Matthías Már Stefánsson 0/1, Pétur Sigurðsson 0/1.
Varin skot: Tyler Szturm 26 (92,9%).
Refsimínútur: 12.

Liðin mætast aftur í Skautahöllinni á Akureyri á morgun kl. 18:45.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og er hægt að sjá upptökuna í spilaranum hér að neðan.