Rúnar skákmeistari Akureyrar 3. árið í röð
Skákþingi Akureyrar, hinu 86. í röðinni, lauk á dögunum og það var meistari undanfarinna ára, Rúnar Sigurpálsson, sem vann öruggan sigur. Hann er því Skákmeistari Akureyrar, þriðja árið í röð.
Áskell Örn Kárason, sem hafði veika von um að ná Rúnari að vinningum fyrir síðustu umferð, tapaði óvænt fyrir Smára Ólafssyni, á meðan Rúnar vann skák sína gegn Helga Val Björnssyni.
Alls tefldu þrettán keppendur í meistaraflokki að þessu sinni og var röð efstu manna sem hér segir:
- Rúnar Sigurpálsson 6,5 vinningar (í 7 skákum)
- Áskell Örn Kárason 5
- Sigurður Eiríksson 5
- Smári Ólafsson 4,5
- Stefán G. Jónsson 4
Framhald verður á skákþinginu í næsta mánuði þegar teflt verður um meistaratitlana í barna- og unglingaflokki dagana 12. og 13. mars.
Mikil gróska er nú í unglingastarfi Skákfélags Akureyrar og virðist svo sem skákíþróttin njóti vaxandi vinsælda hjá yngri kynslóðinni, að sögn Áskels Arnar Kárasonar, formanns félagsins. Hugsanlega má rekja það að nokkru til aukinnar fjölmiðlaumfjöllunar um skák, segir hann, sem oft tengist hinum norska heimsmeistara Magnúsi Carlsen. Þá sé skák orðin mjög aðgengileg á netinu. Þar er mikið teflt og mikið framboð af ýmiskonar fræðslu og þjálfun, segir Áskell Örn.