Rjúpnastofninn hér rétt yfir meðaltali
Samkvæmt rjúpnatalningu á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands í vor er stofninn á Norðausturlandi rétt yfir meðaltali. Mat á veiðiþoli mun liggja fyrir í september.
Fram kemur í frétt stofnunarinnar um rjúpnastofninn og talningu fuglanna að reglubundnar 10-12 ára langar sveiflur í stofnstærð hafi einkennt íslenska rjúpnastofninn. Þessar sveiflur hafi breyst í kjölfar friðunar 2003 og 2004 og samdráttar í veiði frá 2005. Þetta þýðir meðal annars að nú er orðið mun styttra á milli hámarka en áður og segir í frétt stofnunarinnar að þetta sé sérstaklega áberandi á Norðausturlandi. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins mun liggja fyrir í september í kjölfar mælinga á varpárangri í sumar.
Stofnbreytingar rjúpu 2022-2023 voru ólíkar eftir svæðum og landshlutum. Á Norðausturlandi var ástandið mismunandi milli talningarsvæða, en almennt var fækkun eða kyrrstaða vestanvert í landshlutanum, en eindregin aukning austanmegin, eins og það er orðað fréttinni og er þar vísað til Sléttu, Þistilfjarðar og Bakkafjarðar. Miðað við ástand rjúpnastofnsins frá aldamótum er fjöldi rjúpna talinn um eða yfir meðallagi á Norðausturlandi.
Talningarstaðir og -svæði á Norðausturlandi samkvæmt skýrslunni eru: Hrísey, Krossanesborgir, Birningsstaðir, Laxamýri, Hóll, Tjörnes, Hofsstaðir, Mývatn, kelduhverfi, Búrfellshraun, Hafursstaðir, Hólaheiði, Slétta, Þistilfjörður og Bakkafjörður.