Risastór dagur í sögu Nökkva
Nýtt og glæsilegt aðstöðuhús Siglingaklúbbsins Nökkva við Pollinn var formlega tekið í notkun í dag við hátíðlega athöfn, en siglingamenn hafa reyndar nýtt það í sumar og þykir það frábært í alla staði.
Húsið er rúmir 400 fermetrar að gólffleti, stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Í húsinu eru einnig fyrsta flokks búningsklefar með sturtuaðstöðu og þurrkherbergi fyrir blautbúninga. Á efri hæð er félagsaðstaða, þaðan sem hægt er að ganga út á útsýnissvalir sem tengjast með stigum til tveggja átta.
Dagurinn er stór í sögu Nökkva; risastór, sögðu sumir. Hermann Sigtryggsson, einn stofnenda klúbbsins árið 1963, sem viðstaddur var athöfnina í dag, ljómaði af ánægju og sagði gamlan draum að rætast. Ekki gladdist Rúnar Þór Björnsson síður, hann var formaður Nökkva frá 2003 til 2020 og vann manna mest í því að aðstaða Nökkva yrði bætt með þessum hætti.
Á vef Nökkva sagði fyrr á árinu, þegar sá fyrir endann á verkefninu, að lengi væri búið að bíða eftir góðri aðstöðu fyrir siglinga-, kajak-, og róðrafólk og annað sjósportáhugafólk. „Hér er hugsað stórt og vandað til verks og óhætt að segja að allir sem að þessu koma geti verið stoltir af framkvæmdinni,“ sagði þar. Fjöldinn ætti að geta tekið heilshugar undir það.
Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Siglingaklúbbsins Nökkva, Rúnar Björnsson, formaður Nökkva frá 2003 til 2020 og Hermann Sigtryggsson, einn stofnenda klúbbsins.
Eva Hrund Einarsdóttir, formaður frístundaráðs Akureyrar, Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Nökkva og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpar viðstadda.