Fara í efni
Fréttir

Ríki og bær gefa Hofi lýsingu í Naust

Ásdís Arnardóttir, sellóleikari, og harmonikkuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson leika í Nausti eftir hátíðardagskrána í Hamraborg í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímnsson

Ríkisstjórn Íslands og Akureyrarbær tóku höndum saman um afmælisgjöf handa menningarhúsinu Hofi. Í dag var 10 + 1 árs afmæli hússins fagnað og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, upplýsti í ávarpi á hátíðarsamkomu í húsinu að gjöfin væri nýr og vandaður ljósabúnaður sem mun prýða salinn Naust; rýmið aftan við Hamraborg, stóra sal hússins.

Við teikningu Hofs var lögð áhersla á fallega lýsingu í sölum þess, en ekki reyndist unnt að klára kaup á ljósum í Naust við lok byggingaframkvæmda. Úr því verður nú bætt.

Salurinn er notaður í margvíslegum tilgangi, þar á meðal sem fordyri Hamraborgar. Kostnaður við gjöfina nemur ríflega fimm milljónum króna og er hún fjármögnuð með 3 milljóna króna framlagi af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og 2,5 milljóna króna framlagi Akureyrarbæjar.