Rétt upplýsingavernd gegn gervigreind Meta

Facebook logar þessa dagana vegna tilkynningar frá Persónuvernd, þar sem kemur fram að í lok maí muni Meta (Facebook og Instagram) hefja þjálfun gervigreindar með því að nýta færslur, myndir og athugasemdir frá notendum samfélagsmiðla sinna í Evrópu. Mis nýtilegar upplýsingar um það, hvernig skal koma í veg fyrir að lenda í þessari efnistöku frá Meta, dynja á fólki og margir hafa einfaldlega sett upp nýja stöðufærslu og telja sig vera örugg.
Ýmsir hafa reynt að aðstoða með því að útskýra á sínum miðli, hvernig skuli bera sig að, óski fólk eftir því að halda sínu efni frá Meta. Akureyringurinn Jón Ingvi Ingimundarson er einn af þeim, en hann er stjórnmálafræðingur og er um þessar mundir að klára mastersnám í 'European affairs' í Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann er mikill áhugamaður um gervigreind og vernd einstaklinga í netumhverfi nútímans. Við á Akureyri.net fengum leyfi frá Jóni Ingva til þess að birta leiðbeiningarnar, fyrir áhugasöm.
Upplýsingarnar frá Jóni Ingva í skrefum:
- Smellið á "profile" myndina ykkar. Þá ætti að koma niður flipi og þið smellið á "Stillingar og friðhelgi". Ef Facebook er á ensku heitir það "Settings and Privacy".
- Smellið á "Privacy center"
- Textinn sem er á mynd 3 (vonandi) ætti þá að koma upp. Þið sjáið að orðið "object" er skrifað í blátt, smellið á það.
- Þegar þetta er komið fáið þið upp rafrænt form. Þetta er það sem fylla þarf út og senda inn til að andmæla að gervigreind noti ykkar gögn. Góðu fréttirnar eru að þetta er mjög einfalt, eina sem þarf að skrifa er tölvupóstfang ykkar (ætti að vera sjálfkrafa fyllt út) og síðan er valmöguleiki að skrifa inn texta. Ég skrifaði sjálfur "It violates my right to privacy as provided by the European Convention of Human Rights. My data was originally provided for specific purposes and changing that purpose goes against GDPR" en ÞAÐ ER EKKI SKYLDA AÐ FYLLA ÚT.
- Þegar þetta er klárt, smellið á submit/framleggja og síðan staðfest (báðir hnapparnir verða bláir, þannig þekkiru hvern á að ýta á.
- Loksins þegar þessu er lokið ætti innan skams að koma staðfesting í "notification" center hjá ykkur. Þá á þetta að vera komið og ekki frekari aðgerð er krafist frá ykkur.
Jón Ingvi Ingimundarson. Mastersritgerðin sem hann vinnur að núna, á meðan hann starfar tímabundið hjá Jafnréttisstofu á Akureyri, fjallar um reglugerð Evrópusambandsins um gervigreind þegar kemur að stafrænu kynferðisofbeldi, og hversu nýtileg hún er. Mynd: Facebook Jóns Ingva.