Rektor HA harmar vanlíðan þolanda
Rektor Háskólans á Akureyri harmar að aðferðir við öflun þátttakenda vegna rannsóknar á reynslu þolenda kynferðisofbeldis af þjónustu neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hafi valdið aukinni vanlíðan hjá þolanda sem leitað var til. Rannsóknin hafi uppfyllt allar lagalegar kröfur en gagnrýni sem fram kom sé tekin mjög alvarlega og verkferlar innan skólans verði skoðaðir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Elínar Díönnu Gunnarsdóttur starfandi rektors í dag.
Ung kona, sem leitaði til neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri vegna kynferðisbrots, sagði í samtali við fréttamann RÚV að það hafi valdið sér mikilli vanlíðan þegar nemi í Háskólanum á Akureyri hafði samband við hana vegna rannsóknar fyrir meistararitgerð. Hún kvaðst mjög ósátt við að ókunnugir geti fengið svo viðkvæmar persónuupplýsingar frá spítalanum.
Í frétt RÚV segir: Konan, sem vill ekki koma fram undir nafni, er búsett á Akureyri og er á tuttugasta aldursári. Þegar hún var ekki orðin átján ára fór hún í samkvæmi ásamt vinum sínum hjá manni sem hún þekkti lítillega til gegnum kunningja. Þar varð hún fyrir grófri nauðgun og leitaði því til neyðarmóttöku kynferðisbrota á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég var bara krakki,“ segir hún, „en hann setti líf mitt á pásu. Ég lifi dags daglega í ótta um að rekast á hann, hvort sem það sé úti í búð, á rauðu ljósi, niðri í bæ eða annars staðar.“
Yfirlýsing rektors HA í heild:
„Rektor og allt starfsfólk HA sem að málinu koma harma að aðferðir við öflun þátttakenda vegna rannsóknar á reynslu þolenda kynferðisofbeldis af þjónustu neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hafi valdið aukinni vanlíðan hjá þolanda sem leitað var til. Málið var skoðað í sumar og ljóst að málsmeðferð var samkvæmt reglum og lögum. Þó svo sé, þá er alltaf tilefni til að endurmeta og skoða hvort gera megi betur.
Hjúkrunarfræðingur á SAk sem er verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar og umræddur meistaranemi við Háskólann á Akureyri fékk leyfi til að hafa samband við mögulega þátttakendur. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu kvenna sem hafa nýtt sér þjónustu neyðarmóttöku SAk, með það að markmiði að dýpka skilning og auka þekkingu á reynslu þolenda í því augnamiði að bæta þjónustuna. Upplýsingar um mögulega þátttakendur voru ekki hluti af gögnum rannsóknarinnar að öðru leyti en að þeir væru notendur neyðarmóttökunnar. Fyrir lá rannsóknaráætlun þar sem nákvæmlega er talið upp hvernig hafa átti samband við mögulega þátttakendur og hvernig upplýsts samþykkis þeirra um þátttöku væri aflað. Þessari áætlun var fylgt í einu og öllu.
Ljóst er að umrædd rannsókn uppfyllti allar þær lagalegu kröfur sem til hennar voru gerðar. Við tökum hinsvegar mjög alvarlega alla þá gagnrýni sem komin hefur fram og í ljósi þessarar reynslu mun rektor HA ásamt stjórnendum og rannsakendum, skoða verkferla innan háskólans þegar við eiga jafn viðkvæmar rannsóknir og þessi.“