Reksturinn stendur og fellur með flugeldasölu
Árleg flugeldasala björgunarsveitarinnar Súlna hófst í gærmorgun. Akureyringar eru alla jafna skotglaðir á gamlárskvöld og formaður Súlna hvetur fólk til þess að koma tímanlega til þess að forðast örtröð í flugeldasölunni.
„Þetta var allt með hefðbundum hætti, salan fer yfirleitt rólega af stað og það var eins núna. Snjór og ófærð í bænum hafði líka sitt að segja. Netsalan byrjaði hins vegar af krafti,“ sagði Gunnlaugur Búi Ólafsson, formaður Súlna við Akureyri.net.
„Það er áramótahefð hjá mjög mörgum Akureyringum að kaupa sér flugelda en vegna kófsins – Covid-19 – borgar sig að vera tímanlega á ferðinni. Fyrir þá sem vilja forðast margmenni er betra að mæta fyrri part dags til okkar,“ segir Gunnlaugur. Flugeldasalan í höfuðstöðvum Súlna við Hjalteyrargötu er opin frá klukkan 10.00 til 22.00 og frá 9.00 til 16.00 á gamlársdag.
Súlur hófu að selja flugelda á netinu í fyrra, vegna Covid-19, og það reyndist vinsæl leið. „Fólk er orðið vant því að versla á netinu og greinilega margir sem ætla að nýta sér þá leið núna. Þeir sem kaupa á netinu þurfa að sækja flugeldana; við megum ekki keyra þá heim til fólks því sérstök flutningsréttindi þarf til þess að keyra sprengiefni. Við afhendum flugeldana úr gámi á planinu hjá SBA,“ segir Gunnlaugur. SBA er á næstu lóð við Súlur.
Björgunarsveitirnar þurftu að hafa mikið fyrir því að koma flugeldunum til landsins að þessu sinni; skortur var á gámum og ýmislegt annað tengt heimsfaraldrinum tafði flutninginn, eins og hjá mörgum öðrum. „Við fengum síðustu vörurnar ekki fyrr en rétt fyrir jól en þrátt fyrir brasið er vöruúrval það sama og venjulega. Og þrátt fyrir allt er verðhækkun mjög lítil,“ segir formaðurinn.
„Þetta er lang, lang, lang stærsta fjáröflunin okkar. Rekstur björgunarsveitarinnar ár frá ári stendur og felur með flugeldasölunni,“ segir Gunnlaugur Búi. Hann játar því að Akureyringar séu almennt skotglaðir. „Við höfum því ekki undan neinu að kvarta. Ég lendi stundum í því að fólk kvartar undan því að flugeldarnir séu dýrir og þá þakka ég bara kærlega fyrir að það kaupi af okkur, vegna þess að þannig getum við rekið björgunarsveitina!“