Fara í efni
Fréttir

Rekstraröryggi verði óbreytt næstu 20 til 25 ár

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd af vef Isavia.
Bæjarráð Akureyrar telur mikilvægt að óbreytt rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt að minnsta kosti næstu 20 til 25 árin. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var samhljóða á fundi ráðsins í morgun þar sem flugvöllurinn var til umræðu og ný skýrsla um áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi flugvallarins.
 
Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
 

„Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur hlekkur í tryggum samgöngum fyrir landsbyggðina og mikilvæg tenging við höfuðborgarsvæðið. Það er bæði öryggis- og hagsmunamál að völlurinn geti áfram þjónað því fjölbreytta hlutverki sem honum er ætlað með tilliti til sjúkraflugs, aðgengi almennings að innviðum, atvinnulífs og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Reykjavík er höfuðborg okkar allra en skipulagsvaldið yfir Skerjafirðinum er hennar. Þess vegna er mjög mikilvægt að tryggt verði með góðri samvinnu að mótvægisaðgerðum verði fylgt í hvívetna og að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði ekki stofnað í hættu. Mikilvægt er að samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2019 um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli a.m.k. næstu 20-25 árin haldist óbreytt.“