Fara í efni
Fréttir

Reisa nýja stöð fyrir Íslenska gámafélagið

Ný flokkunarstöð Íslenska gámafélagsins mun við rísa við Ægisnes á Akureyri og er gert ráð fyrir að hún verði tekin í notkun síðar á árinu.

Það er Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins - Akureyri, sem reisir húsið. „Um er að ræða stálgrindarhús, alls 1.350 fermetrar að flatarmáli, með vegghæð upp á 9,7 metra. Byggingin mun hýsa flokkunaraðstöðu sem mun gegna lykilhlutverki í meðhöndlun úrgangs á svæðinu,“ segir í tilkynningu frá Súlum.

„Verkið felur í sér alla framleiðslu, afhendingu og uppsetningu stálvirkisins og er lögð sérstök áhersla á nákvæmni, gæði og öryggi á öllum stigum framkvæmdarinnar. Súlur Stálgrindarhús vinna að verkefninu í nánu samstarfi við reynda erlenda birgja, sem tryggir að efnisval og vinnubrögð standist alþjóðlega staðla og væntingar um hágæða lausnir. Þannig er tryggt að byggingin verði bæði endingargóð og hagkvæm í rekstri til framtíðar.“

Kristján Heiðar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa, til vinstri, og Jón Þór Frantzson forstjóri Íslenska gámafélagsins við undirritun verksamnings um bygginguna.

Gert er ráð fyrir að uppsetning hefjist síðsumars um leið og byggingarefni berst á verkstað, og áætlað er að framkvæmdirnar taki um átta til tíu vikur frá þeim tímapunkti. „Þessi nýja flokkunarstöð er hluti af víðtækari áætlun Íslenska gámafélagsins um uppbyggingu og endurbætur á innviðum sínum á landsvísu, með sérstakri áherslu á umhverfisvæna úrgangsmeðhöndlun og bætt þjónustu við íbúa og fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni

Kristján Heiðar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna, segir verkefnið bæði spennandi og mikilvægt fyrir svæðið: „Við erum afar stolt af því að taka þátt í þessu verkefni sem styrkir innviði fyrir umhverfisvæna starfsemi á Norðurlandi. Það er okkur sérstakt ánægjuefni að vinna með Íslenska gámafélaginu að því að skapa lausnir sem bæði mæta kröfum nútímans og stuðla að sjálfbærari framtíð.“

Kristján segir verkefnið undirstrika aukna áherslu Íslenska gámafélagsins á aukið þjónustustig á Norðurlandi og stuðli jafnframt að atvinnusköpun í byggingariðnaði og sorphirðuþjónustu á svæðinu.