Fara í efni
Fréttir

Reisa minnisvarða á Öxnadalsheiði

Aðstandendur og vinir fjögurra háskólastúdenta sem fórust í flugslysi á Öxnadalsheiði fyrir 65 árum ætla að koma upp minnisvarða um fjórmenningana í sumar á heiðinni.

Þeir sem létust voru Bragi Egilsson frá Hléskógum í Höfðahverfi, Geir Geirsson frá Djúpavogi, Reykvíkingurinn Jóhann G. Möller og Ragnar Friðrik Ragnars frá Siglufirði. 

Laufey Egilsdóttir, systir Braga heitins, segir það hafa blundað lengi í ættingjum fjórmenninganna að koma upp minnisvarða. Mikill harmur var kveðinn að fjölskyldum þeirra og vinum eins og nærri má geta. „Þetta var alveg hræðilegt og hefur verið mjög þungbært í hugum manna alla tíð,“ segir Laufey við Akureyri.net.

Þrír drengjanna voru tvítugir en sá fjórði árinu eldri. Allir höfðu þeir lokið stúdentsprófi frá MA árið áður, þrír voru nemendur í læknadeild Háskóla Íslands en Geir var að ljúka flugnámi.

Það var síðla dags 29. mars 1958 sem lagt var upp frá Reykjavík í fjögurra sæta flugvél af gerðinni Cessna 172. Ferðinni var heitið til Akureyrar þar sem þeir félagar hugðust heimsækja góða vini og gamla skólann sinn, Menntaskólann á Akureyri, þar sem halda átti skemmtun um kvöldið.

Áætlað var að lenda á Akureyrarflugvelli um kl. 19.00.  Veður var ágætt í Reykjavík en versnaði þegar norðar dró og ferðinni lauk þannig að flugvélin brotlenti á Öxnadalsheiði, skammt fyrir ofan Bakkasel. Þar lauk ævi þessara efnilegu, ungu manna. Þeir fundust morguninn eftir.

Stefnt er að afhjúpun minnisvarðans 20. ágúst næstkomandi. Hafin er fjársöfnun til að standa straum af kostnaði. „Fyrirfram þakkir til þeirra sem styðja þetta framtak. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segja Laufey og Guðrún Ragnars, systir Ragnars heitins, í erindi sem þær sendu Akureyri.net. Þær hafa verið í forsvari fyrir verkefnið.

Stofnaður hefur verið reikningur vegna söfnunarinnar í Sparisjóði Höfðhverfinga. Reikningsnúmerið er 1187 - 05 - 252550. Kennitala er 251059 - 3819, á nafni Braga Björgvinssonar.