Fara í efni
Fréttir

Regnboginn orðinn bjartur og fagur á ný

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Regnbogalitirnir eru orðnir áberandi á ný í tröppum sem liggja upp að ungmennahúsinu Rósenborg á Akureyri. Þau skemmdarverk voru unnin í síðustu viku að spreyjað var með svörtu yfir regnbogann en nokkur ungmenni mættu á staðinn í gær með málningu og pensla og tröppurnar eru orðnar bjartar og fagrar á ný.

Linda Björk Pálsdóttir og Steinunn Alda Gunnarsdóttir, forvarna- og félagsmálaráðgjafar hjá Akureyrarbæ og verkefnisstjórar Hinsegin FélAk, voru með í för í gær. Það var Hinsegin FélAk, Hinsegin félagsmiðstöð á vegum félagsmiðstöðvanna á Akureyri, sem málaði regnbogalitina á sínum tíma.

Linda og Steinunn segja það hafa verið afar sárt að sjá skemmdirnar í síðustu viku en þær væru að sama skapi mjög stoltar af ungmennunum sem máluðu yfir skemmdirnar í gær. Mikilvægt væri að fagna fjölbreytileikanum í samfélaginu.

„Við vonum bara að þetta verði látið í friði. Að fólk krassi bara á blað ef það þarf eitthvað að krassa,“ sagði Linda. Hún nefndi að regnbogatröppurnar vektu jafnan mikla athygli vegfarenda. „Mjög margir ferðamenn af skemmtiferðaskipum ganga hér framhjá og á hverjum degi stoppar fjöldi fólks hér til að skoða og taka myndir,“ sagði Linda við Akureyri.net.