Fara í efni
Fréttir

Regnbogamessa tilkynnt á Facebook?

Á sunnudaginn næstkomandi verður Regnbogamessa í Akureyrarkirkju. Viðburðurinn er samstarf með Glerárkirkju og var auglýstur á Facebook. Svo virðist vera sem að einhver eða einhverjir hafi tilkynnt viðburðinn á samfélagsmiðlinum því í tilkynningu frá Glerárkirkju kemur fram að viðburðurinn hafi horfið. Mögulega var það tímabundið eða þá að hann var búinn til aftur því viðburðurinn er að minnsta kosti sýnilegur á Facebook þegar þessi frétt er skrifuð.

Til þess að bregðast við hvarfinu birtist tilkynning með mynd viðburðarins á Facebook síðu Glerárkirkju í dag þar sem Akureyringar eru hvattir til þess að deila myndinni til þess að auglýsa viðburðinn.

 

Regnbogamessan verður á sunnudaginn kl. 11.00 í Akureyrarkirkju og sr. Sindri Geir þjónar. Kór Glerárkirkju mun syngja fyrir gesti undir stjórn Valmars Väljaots. Í umsögn um viðburðinn segir:

Í tilefni af hinsegindögum efnum við til guðsþjónustu þar sem kærleikurinn, litróf mannlífsins og hinseginleikinn verða þema stundarinnar.

Einhver velta fyrir sér afhverju regnbogamessa? Það eru allskonar þemamessur í kirkjum árið um kring, en það sem er sérstakt við þetta þema er að kirkjan hefur ekki alltaf verið staður þar sem hinsegin fólk upplifir sig velkomið, og víða um heim fara kristnar kirkju fremstar í baráttunni gegn mannréttindum hinsegin fólks. Þjóðkirkjan hafnar hatri, ofbeldi og útilokun, við trúum að Guð skapi mannkyn í sinni mynd, að fjölbreytileiki mannkyns sé frá Guði kominn.

Því lyftum við upp þessu þema, bæði til að opna faðminn og til að líta inn á við og bjóðum ykkur öllum að koma og taka þátt í stundinni.