Fara í efni
Fréttir

Rannsakar þátttöku múslimskra kvenna á vinnumarkaði

Fayrouz Nouh, lengst til vinstri, ásamt vinkonum sínum við athöfnina í gær.

Fayrouz Nouh, sem búsett er á Akureyri, fékk í gær hæsta styrkinn úr þróunarsjóði innflytjendamála vegna rannsóknar þar sem hún skoðar þá þætti sem ýmist styrkja eða veikja þáttttöku múslimskra kvenna á vinnumarkaði hér á landi.

Fayrouz var í hópi flóttamanna sem kom til Akureyrar frá Sýrlandi árið 2016. Styrkurinn nemur 5,5 milljónum króna. Verkmenntaskólinn á Akureyri fékk einnig styrk í gær, 4,5 milljónir króna vegna náms fyrir óskólagengna erlenda nemendur.

Um rannsókn Fayrouz Nouh segir á vef stjórnaráðsins:

Rannsóknin leitast við að kanna þá þætti sem ýmist styrkja eða veikja þátttöku múslimskra kvenna á vinnumarkaði hér á landi. Í rannsókninni verður kannað hvernig þjóðerni og kyn þeirra móta stöðu þeirra á vinnumarkaðinum. Markmið rannsóknarinnar er að stuðla að inngildingu og jafnri þátttöku þeirra kvenna á vinnumarkaði hér á landi.

Ríflega 40 milljónir

  • Það var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem tilkynnti í gær hverjir hlytu styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls fengu 19 verkefni og rannsóknir samtals ríflega 40 milljónir króna. Sérstaklega var horft til verkefna með eftirfarandi áherslum, að því er segir á vef stjórnarráðsins:
  • Verkefna sem stuðla að virkri notkun íslensku í gegnum félagslega viðburði og sem styðja við hefðbundið íslenskunám.
  • Verkefna þar sem lögð er áhersla á virkni ungs fólks, annars vegar þess sem er nýlega komið til landsins og hins vegar þess sem hvorki er í vinnu né skóla.
  • Verkefna sem stuðla að inngildingu,* einkum verkefna sem stuðla að jafnri þátttöku innflytjenda og innlendra á jafningjagrunni.
    * Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda voru sérstaklega hvött til þess að sækja um, auk þess sem haldinn var fjölmennur kynningarfundur um umsóknarferlið og fór hann fram á íslensku, ensku, pólsku og spænsku. Í fyrsta sinn voru umsóknareyðublöð og leiðbeiningar auk þess höfð bæði á íslensku og ensku.

Mikil gróska

„Framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála hafa verið stóraukin, enda málaflokkurinn mikilvægari en aldrei fyrr. Ljóst er að mikil gróska er í þróunarverkefnum og rannsóknum sem tengjast flóttafólki og innflytjendum á Íslandi. Nú er einmitt áríðandi að rannsaka áhrif mismunandi aðgerða og verkefna og læra af þeim. Ég óska öllum styrkþegum velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með framhaldinu,“ sagði Guðmundur Ingi í gær.

Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, segir mjög ánægjulegt hve margar umsóknir bárust sjóðnum í ár.

„Mikilvægasta áherslan okkar að þessu sinni var inngilding og við vorum ánægð að sjá mörg verkefni sem stuðla að henni. Einn mikilvægur þáttur í aðlögun innflytjenda er þátttaka þeirra á öllum sviðum samfélagsins og í ár bárust umsóknir frá innflytjendasamtökum og einstaklingum af erlendum uppruna. Það er jákvæð þróun og við vonumst til að sjá fleiri slíkar umsóknir í framtíðinni. Besta vísbendingin um fjölmenningarsamfélag er þegar innflytjendur og innlendir taka saman þátt í að skapa fjölbreytt samfélag á jafningjagrunni,“ segir Paola.

Glöð í gær! Frá vinstri: Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, Fayrouz Nouh og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.